Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:00:20 (4184)


[23:00]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er ærið umhugsunarefni að hér hafa margir stjórnarsinnar komið upp í kvöld og erindi þeirra í pontuna hefur verið að sá þeim vafa meðal íslensku þjóðarinnar að það væri ekki víst að þeir mundu styðja þetta frv. Einn af þeim sem sáði þeim vafa meðal íslensku þjóðarinnar var hv. 5. þm. Norðurl. e. Hann lét það liggja milli hluta hvað hann mundi gera í þeim efnum. Það var sú Austfjarðaþoka sem ég skynjaði. Það eru stórtíðindi fyrir hæstv. sjútvrh. sem hér situr hnípinn og þögull og horfir á hásetana leika lausum hala miðskips og sinna engu fyrirmælum frá stjórnpalli. ( GHall: Þeir eru allir stjórnborðsmegin.) Allir stjórnborðsmegin, segir skipstjórinn sem hefur stundað veiðar sem tengjast vitum en ekki þorski. Allt er þetta umhugsunarefni en ef þjóðin er ekki hissa í kvöld eftir vinnu tvíhöfða nefndarinnar, eftir vinnuna í sjútvrn., eftir umræðurnar í þingflokkunum sem staðið hafa hálfan veturinn, og svo er þetta uppskeran. Hér spretta menn upp einn eftir annan til að sá þeim vafa að gallarnir séu e.t.v. svo stórir á jafnstuttu og litlu frv. sem hér er að það sé óvíst hvort þeir styðji það.