Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:25:08 (4187)


[23:25]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og vangaveltna hans um hagkvæmni fiskflutninga þá vil ég bara biðja hann að heimsækja eitt ágætis fyrirtæki í Grundarfirði, Hraðfrystihús Grundarfjarðar, sem hefur verið í ágætis samstarfi við Fiskiðju Sauðárkróks og koma þar inn fyrir dyr og kynna sér aðeins hvernig er staðið að rekstri fyrirtækis í sjávarútvegi. Hann hefði gott af því.
    Varðandi annað, þá vil ég benda honum á það að Vestlendingar höfðu allt frá upphafi kvótakerfisins nákvæmlega sömu möguleika og aðrir að kaupa sér kvóta og komast yfir kvóta. Þeir höfðu nákvæmlega sömu möguleika og aðrir að reka fiskvinnslu með hagkvæmum hætti. Það er ekkert í kvótakerfinu sem á þessum tíma hefur gert þeirra kost eitthvað lakari en annarra í þessu sambandi.
    Í þriðja lagi þá er hagkvæmni í kvótakerfinu ekki spurning um afla og úthaldsdaga. Eins og hv. þm. eflaust veit þá hefur verið tregfiskirí á togaraslóð, sérstaklega á þorski, meðan þorskurinn hefur gefið sig vel á bátaslóðinni og það er m.a. skýringin á því af hverju hann fær þessar tölur um afla og úthaldsdaga. Þegar menn eru að velta fyrir sér hagkvæmni kvótakerfisins verða menn að bera kvótakerfið saman við eitthvert annað kerfi. Ef þingmaðurinn mundi bera saman annars vegar kvótakerfi með frjálsu framsali við númer eitt kvótakerfi án framsals, númer tvö við sóknarmark eða númer þrjú við frjálsa veiði, þá efast ég ekki um að jafnvel hv. þm. Jóhann Ársælsson mundi skilja það að kvótakerfi með framsali er hagkvæmasta kerfið.
    Þá er málflutningur hv. þm. allur ávísun á eina stóra gengisfellingu og lífskjaraskerðingu. Jafnvel þótt hann flytji gömlu ræðuna sína aftur og trúi öllu sem þar stendur þá tek ég ekki mark á þeirri ræðu. ( ÓÞÞ: En Mogganum? Lýgur Mogginn líka.)