Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:31:14 (4190)


[23:31]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skil eiginlega ekki svona málflutning. Ég hef ekkert verið að tala um að þessi fyrirtæki sem hv. þm. var að nefna hér væru slæm. En ég tel þetta fyrirkomulag gersamlega óviðunandi og þetta er auðvitað einokunarfyrirbrigði. Það er ekki hægt að hafa nein önnur orð um það. Það er ákveðnum aðilum veittur möguleiki til þess að komast yfir aflaheimildina með alveg sérstökum hætti ef menn ætla að halda þessu áfram eins og það liggur fyrir núna, ef menn ætla að hafa það óbreytt og ef menn ætla að fara í að stríð. Og það stríð verður ekki bara við sjómenn. Það verður stríð við byggðarlögin í landinu sem hafa farið verst út úr þessu. Við eigum auðvitað að heyja það stríð hér inni í þinginu.
    Ég tel að þessi umræða sé út af fyrir sig mjög góð. En það þýðir ekkert að koma inn í þá umræðu með einhverjar dylgjur um það að ég sé á móti góðum fyrirtækjum. Ég tel að þau eigi bara að keppa á eðlilegum grundvelli. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að fiskvinnslufyrirtæki eigi t.d. að eiga kvóta. Ég tel að aflaheimildirnar eigi fyrst og fremst að vera í höndunum á þeim sem eru að nota þær, þ.e. útgerðinni í landinu, og það er fáránlegt að eyðileggja útgerðargrundvöllinn með þessum hætti. Það er það sem er að gerast í landinu núna, þ.e. að langstærstur hluti útgerðarmanna er að verða leiguliðar hjá einhverjum öðrum.