Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:37:37 (4193)


[23:37]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst það augljóst að hv. þm. Jóhann Ársælsson geri sér ekki fyllilega grein fyrir því hvert það leiðir okkur í þessu þjóðfélagi ef við nemum úr gildi þær reglur sem hafa verið grundvöllur fjárfestingar hér á undanförnum árum. Hann talar um að hér séu risnar upp illleysanlegar deilur með því að hafa frjálst framsal á kvóta. Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir því hvílíkan óskapnað hann er að vekja upp ef hann afnemur þetta frelsi? Ég efast um það, satt best að segja, og ég verð að segja eins og er og taka undir orð sem féllu hér áðan að það er sérkennileg vanþekking á rekstri þeirra fyrirtækja sem lengst hafa náð í fullvinnslu og í markaðstengslum ef menn skynja ekki hvað hráefnisöflunin sem er nátengd frjálsu framsali á kvóta er mikilvægur þáttur í rekstri þessara fyrirtækja og hve mikið er í húfi ef þessu verður svipt burt og jafnframt þeirri fjárfestingu sem hefur gert þetta mögulegt.