Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 01:29:12 (4203)


[01:29]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það stendur enn upp úr í lok umræðunnar að mati hæstv. sjútvrh. að þrátt fyrir gagnrýnina á kvótakerfið hafi menn ekki sett fram hér hugmyndir eða tillögur um neitt annað fyrirkomulag og þar með sé þetta í lagi. Eða hvað? Er þar með verið að segja að gagnrýni standist ekki? Dugar svona málflutningur? Það gerir hann ekki. Jafnvel þó svo það stæði í stjórnarskránni að það væri ekki til annað kerfi en kvóti, þá ætti það samt fullan rétt á sér og væri þarft og skylt að ræða framkvæmd hans, tilhögun og fyrirkomulag og þá ágalla sem á honum væru. Ég er þeirrar skoðunar að blint kvótakerfi sem ekki tekur við skilaboðum frá náttúrunni sé afar varhugavert tæki til að stjórna nýtingu lífrænnar auðlindar þar sem miklar sveiflur eru. Fiskveiðar eru ekki uppmokstur á statífum kolabing, það er ekki þannig.
    Síðan vil ég segja við sjútvrh. að munurinn á þessu sölukerfi og því fyrirkomulagi sem áður gilti er sá að nú þurfa menn að kaupa sig inn í útgerð á nýjan leik, kaupa sér aðgang að atvinnurekstrinum á nýjan leik ef þeir fara á hausinn. Þess þurfti ekki áður. Þá var nóg að safna liði og koma sér á sjó og þá máttu menn fara að veiða.