Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 01:33:26 (4207)


[01:33]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. nefndi í yfirlýsingu samningsaðila þar sem lýst var yfir að það væri óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá söluverði aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað, hann talaði um þessa yfirlýsingu í samhengi við seinni hluta yfirlýsingarinnar þar sem kemur fram að þetta eigi ekki að hafa áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli. Þessi seinni hluti yfirlýsingarinnar hefur verið túlkaður þannig að þarna mætti notfæra sér þetta til þess að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum í þessum svokölluðu tonn á móti tonni viðskiptum. Það hefur verið túlkað þannig að það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að hrista höfuðið yfir því.
    Ég vil spyrja hann að því, þegar hann er að tala um þessa yfirlýsingu, hvort hann hafi þá lesið yfirlýsingu sem var með samningi milli Farmanna- og fiskimannasambandsins og LÍÚ sem var undirrituð nokkru síðar þar sem einungis er um að ræða fyrri hluta þessarar yfirlýsingar sem hann las hér áðan.