Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 01:36:13 (4209)


[01:36]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í yfirlýsingunni sem fylgir samningnum við Farmanna- og fiskimannasambandið sem LÍÚ skrifaði undir 27. júlí 1992 er einungis um fyrri hluta yfirlýsingarinnar að ræða. Þar stendur:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni er óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverði aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað.``
    Það kemur ekkert meira fram í þessari yfirlýsingu þannig að það er ekki hægt að stunda þann orðhengilshátt sem sumir hafa gert og gerðu í samningunum við sjómenn í vetur, þ.e. að vitna til seinni hluta yfirlýsingarinnar sem hæstv. ráðherra las áðan og rökstyðja það að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum með þeim óbeina hætti eða beina eða hvaða orðalag sem menn vilja hafa um það, þ.e. að taka aflaheimildarverðið inn í fiskverðið.