Húsrými Þjóðarbókhlöðu

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:37:55 (4216)


[13:37]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef mínar upplýsingar um þetta frá fólki sem er nú að huga að fyrirhuguðum flutningi. Það sem býr í þessu máli er m.a. það að Háskóli Íslands þarf á miklu lestrarrými að halda fyrir sína nemendur, lessali, og þetta nýja fyrirhugaða safn er allt of lítið til þess að þjóna þeirri þörf. Hér er um að ræða skólabókadæmi um það hvernig ekki á að standa að opinberum framkvæmdum. Bæði er húsið hannað þannig að það verður ákaflega erfitt að stækka það og eins líður svo langur tími frá því að framkvæmdir hefjast og þangað til þeim lýkur að menn hafa enga yfirsýn yfir þær breytingar sem orðið hafa. Jafnframt því að starfsemi bókasafna hefur gjörbreyst hefur Háskóli Íslands vaxið stórlega og því hygg ég að þessi stofnun muni byrja sitt starf með því að horfa fram á húsnæðisskort og ákveðinn vanda í sínu starfi.