Álag á virðisaukaskatt

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:39:52 (4218)


[13:39]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. fjmrh. Í 27. gr. laga um virðisaukaskatt frá 1988 eru ákvæði um viðurlög ef virðisaukaskattur er ekki greiddur á tilskildum tíma. Þau ákvæði voru sett með lögum nr. 119/1989. Í tilgreindu lagaákvæði er álag ákveðið 2% af vangreiddri upphæð fyrir hvern byrjaðan dag, þó ekki hærra en 20%.
    Þegar þessi lagaákvæði voru sett geisaði hér mikil verðbólga og um mitt ár 1989 voru dráttarvextir hér á landi 45,6%. Eflaust eru slíkar álögur í fleiri lögum þó svo ég muni einungis eftir útsvarslögum í fljótu bragði.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji slíkt álag ekki gjörsamlega úr takt við tímann þar sem verðbólga og vextir hafa verið á hraðri niðurleið og verða vonandi enn.
    Einnig vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji að slíkar okurálögur skili þeim tilgangi sem til er ætlast.