Endurskoðun grunnskólalaga

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:50:02 (4228)


[13:50]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að fara að ræða það við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvaða pólitískar skoðanir þessir 18 menn hafa. Ég veit t.d. ekkert hver þeirra er krati en ég er afskaplega ánægður ef það er rétt að alla vega 17 þeirra séu sjálfstæðismenn. Það er meira en ég vissi þegar ég skipaði þá enda fór ég ekki eftir neinni merktri kjörskrá.
    Ég ítreka það að ég tel sjálfsagt að stefna að þessari yfirfærslu eins og áður var ákveðið í ágústmánuði 1995. Ég viðurkenni það að frumvörpin verða seint á ferðinni ef það á að vera mögulegt að afgreiða þau á þessu þingi. Ég held samt enn í þá von miðað við þær viðtökur sem þetta mál hefur fengið hjá ýmsum aðilum sem við höfum leitað til meðan þessi frumvörp hafa verið í vinnslu.