Störf útvarpslaganefndar

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:53:51 (4231)


[13:53]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. menntmrh. Ég ætla að spyrja um aðra nefnd sem menntmrh. skipaði til þess að gera endurskoðun á útvarpslögunum og spyrja hvað líði störfum þeirrar nefndar. En rétt eins og nefndin sem skipuð var til þess að skoða skólamálin, þá átti stjórnarandstaðan þar enga innkomu. Ég vil spyrja hvað líði störfum þessarar nefndar.
    Þá vil ég líka taka upp þráðinn þar sem við menntmrh. slepptum honum þann 10. des. sl. en þá spurði ég hann um það hvort til væri nefndarálit í menntmrn. frá þriggja manna nefnd sem ráðherra hafði skipað til þess að kanna hvort æskilegt væri að skilja milli útvarps og sjónvarps og gera þær tvær aðskildar stofnanir. Ráðherra staðfesti að þetta álit væri til og hann hefði sent það útvarpslaganefnd og þegar ég bað um álitið þá sagðist hann ætla að ráðgast um það við formann útvarpslaganefndar, hv. þm. Tómas Inga Olrich, en hann var þá fjarstaddur. Nú vil ég spyrja ráðherra hvort hann hafi ráðgast um þetta mál við Tómas Inga Olrich og hvort hægt sé að fá þetta nefndarálit.