Störf útvarpslaganefndar

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:56:56 (4233)


[13:56]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það er vissulega athyglisvert að síðasti fundur nefndarinnar skuli vera áætlaður í dag og frv. muni líta dagsins ljós á næstu dögum. Það má fullyrða um þessa nefnd að hún hefur ekki haft samband við stjórnarandstöðu eða leitað til hennar með hugmyndir sínar, a.m.k. ekki til þingflokkanna eins og ráðherra taldi þó að hin nefndin hefði gert. Við höfum því hvergi átt nokkurt innhlaup í þessi mál.
    Heimildir segja mér að niðurstaða þriggja manna nefndarinnar, sem ráðherra skipaði til þess að kanna skipulag Ríkisútvarpsins, eins og hann orðaði það, hafi verið sú að það bæri að skilja á milli sjónvarpsins og útvarpsins. Ráðherra getur væntanlega staðfest það hér hvort ég hef rétt fyrir mér varðandi þá hluti. En úr því að ráðherra er staddur hér í dag og líka hv. formaður útvarpslaganefndar og ég sé að þeir eru að ræða saman, þá gætu þeir vonandi svarað því núna hvort hægt er að fá þetta nefndarálit upp í hendurnar.