Listaháskóli

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:00:11 (4237)


[14:00]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. menntmrh. eins og fleiri. Það er mikið að gera hjá honum í dag enda margar nefndir sem hann hefur skipað. Ég ætlaði að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvað væri mikil alvara á bak við þessa skilagrein um listaháskóla sem var samin af nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði og hefur verið dreift. Því er ekki að neita að það er þó nokkur eftirvænting í þjóðfélaginu eftir frv. til laga um listaháskóla. Áður hefur verið skilað nefndaráliti og lagt fram frv. um listaháskóla. Árið 1990 var það gert, en samkvæmt þessari skilagrein er verið að tala um að kúvenda algerlega og listaháskóli verði eins konar séreignastofnun.
    Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann muni leggja fram frv. til laga um listaháskóla sem verði byggt á þessari skilagrein.