Listaháskóli

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:01:34 (4238)


[14:01]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Skilagrein listaháskólanefndar var lögð fyrir mig í júnímánuði sl. Málið hefur verið kynnt síðan við ýmis tækifæri og það liggur að sjálfsögðu full alvara á bak við svona tillögur. Við héldum málþing um þetta mál í byrjun desembermánaðar sl. Það sóttu um það bil 100 manns frá ýmsum samtökum listamanna og frá þeim skólum sem talað er um að fari á háskólastig samkvæmt þessum tillögum.
    Síðan hafa verið haldnir tveir fundir með fulltrúum hinna ýmsu samtaka listamanna. Sá fyrri milli jóla og nýárs og sá síðari í lok desember og næsti fundur verður einmitt haldinn í kvöld. Þá verður látið reyna á það hvort stuðningur fæst við þá hugmynd sem þarna er sett fram um að listaháskóli verði rekinn sem sjálfseignarstofnun sem er alveg ný hugmynd en þekkist auðvitað í skólakerfinu. Það verður látið reyna á það hvort stuðningur fæst við þá hugmynd hjá skólunum sjálfum og hjá þeim samtökum listamanna sem við höfum sérstaklega leitað eftir skoðunum hjá. Ég mun svo meta stöðuna að loknum þessum fundi hvort frv. verður lagt fram á þessu þingi sem er þá í samræmi við tillögur listaháskólanefndar.