Listaháskóli

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:03:37 (4239)


[14:03]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og fyrir það að mér heyrist hann ætla að fara varlega í það að leggja fram frv. í andstöðu við listafólk landinu og það fólk sem starfar við þá skóla sem verið er að tala um að færa að fullu upp á háskólastig. Það er í sjálfu sér gott því að ég óttaðist að það væri einhver harka komin í þetta mál og hæstv. menntmrh. ætlaði að leggja fram frv. í andstöðu við þessa hagsmunaaðila. En hann talar um nýja hugmynd og það er rétt. Ég veit ekki til þess að nokkur staðar sé listaháskóli rekinn með þessu formi. Hvaðan hefur hæstv. menntmrh. þessa hugmynd? Eða, ef hann veit það: Hvaðan fær nefndin hugmynd um listaháskóla sem væri ekki í eigu þjóðarinnar?