Listaháskóli

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:04:42 (4240)


[14:04]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :

    Hæstv. forseti. Mér fannst á orðum hv. þm. eins og það lægi ljóst fyrir að ef frv. yrði lagt fram sem gengi út frá þessum tillögum listaháskólanefndar, þá væri það í andstöðu við listafólkið í landinu og þá skóla sem hlut ættu að máli. Ég kannast alls ekki við það. Þetta hefur fengið góðan hljómgrunn einmitt hjá þeim skólum sem talað er um að færist á háskólastig. Ég hef að vísu heyrt á þeim fundum sem ég vitnaði til áðan, efasemdir og jafnvel andstöðu hjá einstaka aðilum. Það viðurkenni ég svo sannarlega.
    Hugmyndin er komin frá nefndinni sem að þessu máli vann, en mér er kunnugt um að hún kannaði hliðstæða skóla í öðrum löndum. Ég veit t.d. að hliðstæðir skólar eru reknir í Hollandi, svo ég nefni aðeins eitt dæmi.