Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:20:03 (4246)


[14:20]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hæstv. utanrrh. var ansi mikið hógværari núna en í fyrra vetur þegar hann var að gylla fyrir okkur EES-samninginn. Það ástand sem hér hefur skapast er auðvitað óþolandi. Íslendingar verða fyrir stórkostlegu tjóni og nú reynir á EES-samninginn. Við bjuggum áður við bókun 6. Mér skilst á hæstv. utanrrh. að hann gerði ráð fyrir því að ef EES-samningurinn væri ekki kominn í gildi þá lægjum við alveg afvelta í þessu máli og hefðum engin tæki til að rétta hlut okkar. Ég er ekki sammála því. Ég reikna með því að það yrði reynt að beita utanríkisþjónustunni eins. En nú reynir á þennan EES-samning. Í fyrra vetur talaði hæstv. utanrrh. um tveggja milljarða árlegan ábata sem ætti að falla Íslendingum í skaut vegna tollaniðurfellingar. Þeir tveir milljarðar hafa látið bíða eftir sér vegna þess að verðið hefur þá bara lækkað tilsvarandi og það er enginn ábati enn af samningnum.
    Ég spyr hvort ríkisstjórnin hugsi sér að bæta íslenskum útflutningsfyrirtækjum það tjón sem þau verða fyrir. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur ekki skilað þeim hagsmunum sem utanrrh. lofaði. Við stöndum eins og glópar og Frakkar beita okkur miklu harðræði. Mér finnst að hæstv. utanrrh. ætti að spara sér að vitna í það hvað við höfum góða aðstöðu í gegnum EES-samninginn þangað til þetta mál er leyst.