Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:22:18 (4247)


[14:22]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það sem hefur verið að gerast í fisksölumálum okkar í Frakklandi er vissulega umhugsunarvert í ljósi þess að EES-samningurinn er genginn í gildi. Ég hygg að enginn hafi gert ráð fyrir því að slíkt mál kæmi svo fljótlega upp á borðið. Í Frakklandi er einn stærsti markaður okkar fyrir fiskafurðir eins og hér hefur komið fram. Og ein aðalröksemdin fyrir EES-samningi hvað Ísland varðaði var að þar honum fengjum við aukin tollfríðindi fyrir sjávarafurðir og þar með auknar útflutningstekjur. Það hefur nú komið í ljós að þrátt fyrir samninginn reyna Frakkar allar leiðir til að hefta þennan innflutning og er það liður í þeirri viðleitni þeirra að vernda sínar atvinnugreinar. Í þessu tilviki franska sjómenn sem sjá fram á lækkandi fiskverð sem kemur fram í tekjulækkun hjá þeim. Það dugir ekkert þótt íslensk stjórnvöld mótmæli því að hér sé verið að brjóta samninga. Ég hlýt að spyrja: Hvaða hald er í slíkum samningum? Hvaða hald er í þeim stofnunum sem settar hafa verið á fót í kringum EES-samninginn og eiga að sjá um að hann sé ekki brotinn? Var EES-samningurinn kannski tímaskekkja? Það viðskiptafrelsi sem samningurinn átti að tryggja hefur reynst haldlítið. Jafnvel innri markaðurinn hjá EB hefur heldur ekki haft þau hagvaxtaráhrif sem hann átti að hafa í þeim löndum.
    Að lokum varpa ég þeirri spurningu fram: Skyldi ekki sá mikli ávinningur sem við áttum að hafa af EES-samningi verða heldur rýr þegar upp er staðið?