Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:24:01 (4248)


[14:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þeirri þróun sem á sér stað í viðskiptum okkar við Frakkland þessa dagana. Við höfum nú þegar orðið fyrir miklu tjóni vegna þessara mála og sér ekki fyrir endann á því. Auk þess hafa hrannast upp spurningarmerki við það hvort þeir samningar sem við höfum við þessi ríki um innflutning muni verða okkur að gagni. Það er a.m.k. mikið umhugsunarefni þegar það liggur fyrir að stjórnvöld í Frakklandi hafi lofað sjómannastéttinni þar því að þau ætli að tefja innflutning og brjóta samninga sem við höfum gert við þau.
    Ég held að það hljóti að þurfa að gerast eitthvað áhrifamikið til að menn taki trúna aftur. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. hvað hann telji að EFTA-nefndin muni aðhafast í framhaldi af þessu þegar hún hefur fjallað um málið, til hvaða aðgerða hún muni grípa.
    Mig langar til að biðja hann að útskýra það líka fyrir okkur hv. þm. hvers vegna við hefðum ekki getað gripið til neinna sambærilegra aðgerða áður en þessi EES-samningur varð til á grundvelli þeirra samninga við EB sem við höfðum áður í bókun 6.
    Ég verð að segja það að lokum að mér finnst við hafa hlustað á svo margar ræður í þinginu um þetta EES-mál og bjartsýnina alla. Einu sinni voru það 7 milljarðar sem við áttum að hafa á ári samkvæmt ræðu sem hæstv. utanrrh. hélt hér. Við lásum blaðagreinar eftir aðra ráðherra og hlustuðum á þá hér á hv. Alþingi þar sem þeir lýstu því að það væru margir milljarðar á ári, oftast 2 nefndir, sem við ættum að hafa út úr þessum EES-samningi. Það þarf að fara að koma eitthvað í ljós af þessum hag sem við höfum af þessum samningi.