Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:26:19 (4249)


[14:26]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Það er ástæða til að líta mjög alvarlegum augum það sem nú er að gerast varðandi innflutning okkar á fiski til Frakklands og vissulega áhyggjuefni. Það er jafnframt að koma í ljós, sem e.t.v. átti ekki að koma svo mjög á óvart, að það er ákaflega lítið hald í EES-samningnum sem átti að bjarga öllu. Er nú merkilegt að heyra að hæstv. utanrrh. er ekki alveg eins borubrattur og hann var hér oft á tíðum síðustu árin. Og raunar hlægilegt að heyra hann halda því fram að réttur okkar væri enginn ef við værum ekki með þennan EES-samning. Mér finnst hlægilegt að hæstv. utanrrh. skuli láta sér detta í hug að bera þetta á borð fyrir okkur þingmenn.
    Það er út af fyrir sig hægt að skilja það að sjómenn í Frakklandi reyni að verja tilverurétt sinn. Það er verið að gera það hér á landi einnig. Ég veit ekki betur en það sé verið að berjast í því í þingnefndum að reyna að setja girðingar til að hindra innflutning samkvæmt þessum samningi og öðrum samningum sem við erum aðilar að. Þarna er nákvæmlega það sama á ferðinni. Ég hef ákveðinn skilning á því að menn reyni að berjast fyrir rétti sínum þó það komi sannarlega illa við okkur þykir mér það slæmt að það skuli bitna þannig á okkur. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessi EES-samningur er ekki það hald sem hér hefur verið haldið fram af hálfu hæstv. utanrrh. og reyndar annarra ráðherra og meiri hlutans á Alþingi sem samþykkti þennan dæmalausa samning.
    Það er að koma í ljós að fólk í Evrópu, fólk á Íslandi er ekkert tilbúið til að þurrka út landamæri. Það er ekki tilbúið til að steypa allri Vestur-Evrópu í eina heild. Ég held því að það sé rétt fyrir okkur að staldra við og líta á þessa samninga sem við erum að gera með tilliti til okkar hagsmuna fyrst og fremst.