Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:35:19 (4253)


[14:35]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Frakkar hafa með ruddalegum hætti brotið þá samninga sem gerðir hafa verið á vettvangi EES um þessi málefni. Það samningsbrot bitnar að vísu ekki eingöngu á okkur, það beinist ekki eingöngu að Íslendingum heldur er almennara eðlis. En mér finnst fáránlegur sá málflutningur sem hefur skinið í gegn hjá ýmsum sem hafa tekið hér til máls, einkanlega í fyrri hluta umræðunnar, að þetta samningsbrot Frakka væri eiginlega EES-samningnum að kenna og mætti eiginlega líta svo á að nú væri komið í ljós hversu bölvaður þessi EES-samningur væri. Þetta væri bara það fyrsta sem komið hefur í ljós, enda hefði hann ekki skilað okkur neinum hagnaði enn sem komið væri. Þessi málflutningur er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Þessi samningur hefur ekki verið í gildi nema í einn og hálfan mánuð. Það er ekki von að hann sé farinn að skila okkur miklu enn sem komið er.
    Hins vegar eru í honum, eins og fram hefur komið, þau tæki og þau tól sem við þurfum til þess að geta brotið á bak aftur brot sem þessi. Þarna kemur í ljós hvernig við sem smáþjóð getum haldið stórþjóð eins og Frökkum að samningum vegna þess að í þeim er gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum til þess að setja niður deilur og leiða ágreining til lykta. Þetta er auðvitað það mikilvæga í málinu. Þetta er það sem EES-samningurinn færir okkur. Hann gefur okkur þá möguleika sem við þurfum til þess að brjóta þetta á bak aftur. Og það er auðvitað fullkomlega ótímabært að halda því fram að þessi tæki séu einskis megnug, eins og hér hefur komið fram, og það sé þegar leitt í ljós að þau muni ekki duga til neins. Það er fyrst í fyrramálið sem haldinn verður fundur í EES-nefndinni, eins og utanrrh. sagði, og framhaldið mun síðan skýrast. Ég hygg að það muni koma í ljós að það verður vel á þessum málum haldið fyrir Íslands hönd og við hljótum að snúa bökum saman um að leysa þetta mál. Það er engum til gagns að standa hér og hlakka yfir því að þetta mál skuli komið upp og kenna EES-samningnum um.