Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:37:19 (4254)


[14:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega alveg furðulegur málflutningur hér hjá þessum hörundssáru stuðningsmönnum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þeir hafa heyrt þau orð inni í sínum eigin huga sem þeir ætla mönnum hér. Það hefur enginn maður staðið upp og kennt EES-samningum sérstaklega um þetta. Hitt er óhrekjanleg staðreynd að þetta gerist þrátt fyrir EES. Hann er kominn í gildi, loksins, loksins, en þrátt fyrir það gerist þetta. Má ekki benda á það? Má ekki draga þá staðreynd fram í dagsljósið að án þess að stuðningsmenn hans komi hér hver um annan þveran og væli í ræðustólnum eins og þeir gerðu hér áðan.
    Hæstv. forseti. Þetta er grafalvarlegt mál, segir hæstv. utanrrh. og það er rétt. Þetta er grafalvarlegt mál hvað sem líður öllum samningum um EES. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir útflutningshagsmuni Íslands. Samningsbrot, segir utanrrh. Og ef þetta er samningsbrot, þá spyr ég aftur: Hvers konar samningur er það þá sem virðist gefa einum aðilanum færi á því að brjóta samninginn og komast upp með það? Ég tel ekki að það hafi verið mjög vel haldið á þessu máli af Íslands hálfu því ef þetta er augljóst samningsbrot af hverju var því þá ekki kippt í liðinn bara samstundis og bent á að svo væri, vísað í viðkomandi paragraf og sagt: Nei, góðir hálsar. Þetta er samningsbrot. Segir þetta kannski ekki sitt um viðhorf gagnaðilans og virðingu hans fyrir þessum samningi? Er það kannski svo að þessi pappír þyki merkilegri hér uppi á Íslandi en úti í Evrópu?
    Það er óhrekjanleg staðreynd að þrátt fyrir gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, þá gerist þetta nú. En undanfarin ár höfum við átt greiðan aðgang að Frakklandsmarkaði eins og þær tölur sýna sem ég las hér upp áðan, 7, 8 og 8,5 milljarðar kr. áður en samningurinn gekk í gildi. Nú er allt stoppað og það hlýtur að mega draga þá staðreynd fram í dagsljósið.
    Það er rétt að þetta er pólitísk ákvörðun og þess vegna á einnig að beita pólitískum ráðstöfunum á næsta stigi af okkar hálfu. Og hæstv. utanrrh. á að reka af sér slyðruorðið. Hann á heiður sinn að verja og óskabarns síns og reyna að kippa þessu í liðinn. En við Íslendingar eigum jafnframt að láta hart mæta hörðu þó í litlu sé. Það er prinsippatriði að láta ekki vaða svona yfir okkur. Þótt ekki muni mikið um nokkrar flöskur af rauðvíni og fáeinar Citroën-druslur, þá ber samt að stoppa það til að sýna að við látum ekki fara svona með okkur.