Viðskiptahindranir Frakka gagnvart íslenskum fiskafurðum

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:40:02 (4255)


[14:40]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það hljómar dálítið undarlega á löggjafarsamkomu þegar fleiri en einn og fleiri en tveir hv. þm. segja: Það er verið að brjóta lög. Þess vegna eru lögin einskis virði. Ætla hv. þm. að halda því fram að sú staðreynd að þessi löggjafarsamkoma fæst við það að setja lög en það eru fjölmörg dæmi þess að þau eru brotin, þá sé það starf allt einskis virði? Væri ekki nær að segja sem svo: Hér höfum við dæmi um það að smáríki, sem má sín lítils þegar kemur að bolmagni eða valdbeitingu í viðskiptum, hefur gert samning sem hins vegar stórveldi hefur brotið. Væri ekki nær að við litum í eigin barm og rifjuðum upp: Hver er hagur smáríkisins í slíkum samskiptum? Og litum í eigin barm hversu mikilvægt það er fyrir okkur sjálf að halda sjálf þá samninga sem við höfum gert þannig að við getum uppréttir og sjálfum okkur samkvæmir tekið upp slík mál og sagt: Við höfum a.m.k. staðið við okkar samninga. ( SJS: Höfum við ekki gert það?)
    Í þriðja lagi segja menn: Nú er EES-samningurinn kominn í gildi og sjá. Þeir hafa ekki staðið við hann, það hafa ekki allir staðið við hann. Má ég minna ykkur á það þegar franskir bændur réðust að búfénaði sem fluttur var inn frá Bretlandi, Evrópubandalagsríki, og drápu hann á torgum, í þorpum eða tóku við víninnflutningi frá Ítalíu og helltu niður. Enn og aftur verndarstefnumenn í Frakklandi að brjóta lög. Að sjálfsögðu var enginn maður sem ályktaði af því: Nú, Evrópubandalagssamningurinn er bara einskis virði. Auðvitað var komið lögum yfir þessa menn. Og auðvitað sáu menn það að hagur þeirra var í því að hafa lög, reglur og samninga. EES-samningurinn kominn í gildi, segja menn. Því miður er það svo að það er enn landamæraeftirlit hjá EB. Við gengum ekki í EB og ráðum ekki þeirra landamæraeftirliti þannig að þeir geta að sjálfsögðu enn beitt landamæraeftirliti.
    Síðan hitt. Sá þátturinn sem varðar heilbrigðisreglurnar kemur ekki formlega í gildi fyrr en 1. júlí.

Eftir það er ljóst að þá er ekkert sem gildir sem Frakkar mega gera nema tilviljunarkenndar sýnatökur og rannsókn á upprunareglum og þeir verða að ljúka slíkum rannsóknum innan 24 tíma. Þangað til verðum við að taka upp málið pólitískt séð og krefjast þess að þeir standi við bókun 9 um það að misbeita ekki heilbrigðisreglum og breyta þeim raunverulega í viðskiptahindrun.