Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:06:24 (4260)


[15:06]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hér togist einfaldlega á andstæð sjónarmið varðandi héraðsdóm og hvort það er heppilegt eða æskilegt að hafa héraðsdóm þarna undir. Ég vil taka það fram vegna ábendinga sem ég fékk að vitanlega erum við búin að greiða atkvæði um félagsdóm í 2. umr. en þar sem hann er undir í 3. umr. í heildaratkvæðagreiðslu þá getum við að sjálfsögðu lýst huga okkar gagnvart því máli.

Ég vil bara árétta þetta hérna vegna þess að ég vil ekki gera mig seka um að fara rangt með málsmeðferð í þessu máli. En ég held að það hafi ekki upp á sig að efna meira til umræðu um það hvort héraðsdómstóll á að vera þarna undir. Fram kom við 2. umr. að það er ekki bara kostur að hafa samræmi eða skilaboð á milli héraðsdóms og yfir í Hæstarétt heldur getur það einnig verið íþyngjandi í Hæstarétti því það er ekki víst að hæstaréttardómari hefði talið ástæðu til þess að leita þessa álits. Og það hefði ekki verið hægt að knýja hann til þess en í héraðsdómi er hægt að knýja dómara til þess að leita álits. Sá er munurinn og þar af leiðandi situr hæstaréttardómari uppi með það álit sem hluta af því ferli sem mál hefur tekið þannig að hvort sem hann metur að þarna sé æskilegt að hafa þessa túlkun í farteskinu eður ei.