Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:08:24 (4261)


[15:08]
     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt er þessi nýja brtt. til bóta en þó er í henni sérkennilegt atriði sem ég hlýt að vekja athygli á. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sé gjafsókn veitt samkvæmt 1. mgr. á gjafsóknarhafi rétt á að fá útlagðan kostnað af rekstri málsins fyrir EFTA-dómstólnum endurgreiddan þótt því sé ekki lokið fyrir dómstólum hér á landi. Þetta gildir þó ekki fyrir þóknun umboðsmanna hans fyrir flutning máls fyrir EFTA-dómstólnum en fjárhæð hennar verður ákveðin í dómi í aðalmálinu eftir almennum reglum.``
    Þetta þykir mér allsérkennilegt að greiðsla fyrir málskostnað í einum dómstóli sé ákveðin í öðrum. Og ég vil spyrja í fáfræði minni: Er þetta ekki afar sérkennilegt? Og annað hygg ég að gæti komið þarna til. Þeir sem gerast umboðsmenn sóknaraðila og eru kannski langdvölum erlendis við vinnslu málsins, gæti ekki verið að þá færi að lengja eftir greiðslu áður en málinu lýkur hér heima endanlega í héraðsdómi? Nú kann að vera að hér sé misskilningur á ferðinni og þá bið ég um að hann verði leiðréttur. En það er ómögulegt annað en skilja þennan gang málsins ef textinn er lesinn og ég bið þá um að menn leiðrétti mig ef þessi skilningur er alrangur.
    En síðan er annað skondið við þetta. Hér hefur auðvitað komið fram eins og við höfum kynnst sem sitjum í EES-nefndinni að EFTA-dómstóllinn á langt í land að móta sínar eigin starfsreglur þannig að við getum spurt okkur sjálf: Af hverju erum við að hlaupa svona hratt áður en við vitum í raun og veru hvernig sá hinn mikli dómstóll og eftirlitsstofnun ætla sér að vinna? Það er með öllu óljóst enn þá þannig að ég á erfitt með að sjá hvað liggur á þessu máli.
    Annað hef ég ekki um það að segja. En ég held að þessi brtt. sé til bóta og bið þá afsökunar ef ég er svona illa læs á texta sem þó er á íslensku því að mest af því sem okkur berst nú af gögnum er á enskri tungu með frönskum slettum svo að það er eins gott að vera allvel að sér í tungumálum ef maður á að gegna skyldum sínum innan þessa mikla virkis. En mér er lífsins ómögulegt að skilja þessa 2. mgr. öðruvísi. Annað hef ég ekki um þetta að segja, forseti, en vildi biðja hv. formann nefndarinnar að útskýra þetta betur fyrir mér.