Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:12:55 (4263)


[15:12]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar. Ég skildi ekki alveg hv. formann nefndarinnar sem hefur reynt að útskýra það fyrir mér en hún hefur fallist á nákvæmlega það sem ég var að segja. Lögmaðurinn sem þarf að vera erlendis og standa fyrir málinu þar sem oft tekur miklu lengri tíma en ef verið væri að flytja málið fyrir einum dómstóli verður, eins og ég benti á, að bíða með að fá sína greiðslu þangað til málinu er að öllu lokið. Og auðvitað eru það ekki ný tíðindi fyrir mér að málskostnaður sé greiddur við lok máls þegar dómur er upp kveðinn. En hér er alveg nýtt atriði á ferðinni þegar verið er að sækja málið á tvennum vettvangi, ef svo má segja og það tefur að sjálfsögðu málið að þurfa að leita með það til erlendra dómstóla. Ég hygg að það væri ekki fjarri lagi að umræddir lögmenn kynnu að verða langeygir eftir greiðslu upp í þann mikla kostnað sem þeir hafa orðið að leggja þarna á sig aukalega.