Stöðvun verkfalls fiskimanna

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:45:28 (4271)


[15:45]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Nú er þetta mál komið til 2. umr. og ég hef ekki átt þess kost að vera með sér nefndarálit þar sem við kvennalistakonur eigum ekki fulla aðild að sjúvtn. Ég er í mörgum atriðum sammála áliti 2. minni hluta sjútvn., en ég vil þó taka það sérstaklega fram að ein höfuðgagnrýni okkar kvennalistakvenna á þetta frv. --- ég bið forseta að tryggja mér kyrrð í salnum á meðan ég er að tala. Ég held að það sé að skella hér á kyrrð og þá held ég áfram. --- Ein helsta gagnrýni okkar kvennalistakvenna á þessi bráðabirgðalög er sú ósvífni að beita þessari heimild, sem enn er í lögum, um setningu bráðabirgðalaga.
    Það var margra mat að með breytingum á störfum Alþingis mundi það falla um sjálft sig að þessari heimild yrði yfir höfuð beitt þar sem nú er ekki nokkurt vandamál að kveðja saman þing og fá fram vilja þingsins og lýðræðislega afgreiðslu á örskömmum tíma. Það var ekkert því til fyrirstöðu á þeim tímapunkti sem þessi bráðabirgðalög voru sett frekar en á öðrum tímum. Þannig að þetta er okkar helsta gagnrýni og ég hefði gjarnan viljað hafa möguleika á því að koma henni sérstaklega á framfæri í nál. En ég nýti mér rétt minn í ræðutíma í staðinn til að taka þetta enn og aftur fram og þetta er ein meginástæðan fyrir því að við kvennalistakonur, með Kristínu Einarsdóttur sem 1. flm., flytjum á þskj. 494 frv. til stjórnarskipunarlaga um það að þetta ákvæði, sem er í 28. gr. stjórnarskrárinnar, um að ríkisstjórn geti sett bráðabirgðalög, verði fellt út. Vegna þess að ríkisstjórnin, sem hefur setið síðan lögum um þingsköp Alþingis var breytt, hefur ekki reynst þess trausts verð sem henni var veitt með því að halda þessari heimild inni, jafnvel þó engin þörf sé á henni.
    Núna hefur þetta bráðabirgðalagavald verið notað bæði mjög frjálslega og mjög freklega og í mjög viðkvæmum pólitískum málum. Og það kom hér glöggt fram við 1. umr. þessa máls að þarna var þessu bráðabirgðalagavaldi hreinlega misbeitt. Það var verið að nýta sér það að í stað þess að hafa samráð, eðlilegt samráð og eðlilega umræðu á Alþingi, eins og að sjálfsögðu átti að gera og hefði ekki verið nokkrum vandkvæðum bundið, þá voru þar nokkrir menn sem ákváðu að það hlyti að vera vilji meiri hluta Alþingis að setja bráðabirgðalög. Það er mjög vafasamt að túlka það svo eftir 1. umr. þessa máls og þar af leiðandi er brotið þeim mun augljósara.
    En þarna er sem sagt tvöfalt brot að mínu mati. Annars vegar er verið að beita bráðabirgðalagaheimild algjörlega að óþörfu og hins vegar er verið að misbeita henni á þann hátt að kanna það ekki hvort yfir höfuð sé þingmeirihluti fyrir þessum lögum. Það hefði verið einfaldast að gera það með því að kalla saman Alþingi. Þetta finnst mér í rauninni mjög mikilvægt.
    Annað sem varðar setningu þessara laga eru margítrekuð brot bæði núv. ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna á beitingu laga, þ.e. að setja lög á vinnudeilur og kjarasamninga. Þetta er mjög alvarlegt mál og brýtur í fyrsta lagi ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu, hefur í öðru lagi verið gagnrýnt og tekið upp af tveimur sérfræðinganefndum í Evrópu og þessi gagnrýni hefur verið kynnt að ég held árlega á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Og mönnum má vera fullkunnugt um það að þessi gagnrýni er ekki bara vegna einhvers eins brots heldur margítrekaðra brota og þarna er í rauninni orðin mjög alvarleg íhlutun í

frjálsan samningsrétt í þessu landi. Þetta út af fyrir sig hefur sett sinn svip á vinnudeilur. Það lá í loftinu, t.d. í sjómannaverkfallinu í janúar, allan tímann, að þessi möguleiki var fyrir hendi, þessi ógn vofði yfir ...
    ( Forseti (KE) : Forseti vill spyrja ræðumann hvort hann geti lokið ræðu sinni á stuttum tíma. Ef svo er ekki, hvort hann geti gert hlé á ræðu sinni á einhverjum góðum punkti innan tíðar því að nú þyrfti að fara fram atkvæðagreiðsla um 3. dagskrármálið.)
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fá að halda áfram máli mínu þannig að ég mun gera hlé á ræðu minni. Ég ætla aðeins að fá að taka fram eitt í viðbót varðandi þessi mál, vegna þess að ég tel þetta mjög alvarlegt, þessa íhlutun ríkisstjórna í vinnudeilur og kjarasamninga. Ég fer fram á það að a.m.k. sá hæstv. ráðherra sem hér er viðstaddur geri grein fyrir því hvers vegna ríkisstjórnin greip til slíks óyndisúrræðis. Vegna þess að ég sá það skömmu áður en þessi lög voru sett að hann hafði svo sannarlega ekki hug á því að grípa til þessara ráða. Og mig langar líka að spyrja hvort þetta sé þá eitthvað sem má vænta af ríkisstjórninni, að hún muni eilíflega vera tilbúin til að grípa inn í kjarasamninga og vinnudeilur, eins og þarna átti sér stað. Því það eru bara skilaboð sem verða að komast til aðila vinnumarkaðarins og þá verður einfaldlega að setja þrýsting á að ríkisstjórninni verði ekki eilíflega mögulegt að gera slíkt.
    Ég geri hér hlé á ræðu minni, hæstv. forseti.