Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:16:09 (4288)


[12:16]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir afdráttarlausa yfirlýsingu um að styðja við þá stefnumótun sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað um að flytja ríkisstofnanir út á land. Veit ég að það mun muna mjög um þann stuðning.
    Í sambandi við flutning embættis veiðistjóra til Akureyrar þá tel ég að þar hafi aldeilis ekki orðið slys. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætli að hefja afskipti sín af flutningi ríkisstofnana út á land með því að reyna að setja fót fyrir málið, með því að spilla fyrir málstaðnum og ýfa upp hluti sem ekki er fótur fyrir. Ég trúi ekki að hann ætli þannig að styðja stefnumótun hæstv. ríkisstjórnar um flutning ríkisstofnana út á land vegna þess að hæstv. umhvrh. stóð einmitt mjög vel að undirbúningi málsins. En það er ákvörðunin sem verður alltaf sár og erfið fyrir þá sem hún snertir, það starfsfólk sem treystir sér ekki til að flytja með stofnuninni út á land. Það er ekki slys, það verður alltaf erfitt. Þessi ákvörðun verður alltaf erfið en það þarf að taka þessa ákvörðun og það þarf líka að standa andspænis afleiðingum hennar. Þetta er óhjákvæmilegt við flutning ríkisstofnana út á land. Því fólkið sem er að hrekjast af landsbyggðinni til Reykjavíkur er heldur ekki dauðir hlutir.