Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:46:14 (4291)


[12:46]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það verður ekki séð á umræðu í morgun né á mætingu þingmanna og ráðherra að hér sé um að ræða mál sem miklu máli þykir skipta. Mér hefur orðið það nokkurt umhugsunarefni hvernig þetta hefur þróast og hversu bitlítil þessi umræða virðist vera, m.a. vegna fjarveru allra helstu stjórnmálaforingja landsins. Ég tel að menn þurfi aðeins að velta því fyrir sér hvers vegna svo er komið þeirri umræðu sem hefur verið hvað kraftmest á þessu kjörtímabili þegar hún fór fram fyrir rúmum tveimur árum.
    Niðurstaða mín er sú að það sé ekki vegna þess að áhugi manna á málefninu hafi minnkað. Ég hygg að hann sé til staðar eftir sem áður þó að menn sæki ekki þennan þingfund og taki þátt í umræðunni heldur hitt að ég hygg að menn séu almennt komnir á þá skoðun að núverandi ríkisstjórn sé búin með

sitt hlutverk, að hún sé svo illa haldin af innantökum að menn hafi ekki lengur trú á því að hún muni nokkuð gera í byggðamálum þann tíma sem hún á eftir að sitja. Það þykir mér miklu líklegri skýring að menn hafa áttað sig á því að það skiptir ekki svo miklu máli upp á það að hafa áhrif á núverandi ríkisstjórn að flytja mál sitt hér vegna þess að svo er komið fyrir ríkisstjórninni að hún er með hugann við allt önnur verkefni og menn sjá það fyrir að hún muni ekki vinda sér í nein verkefni sem máli skiptir í byggðamálum. Það er mikill skaði að svo skuli til hafa tekist því að það er sama hver ríkisstjórnin situr að auðvitað á hver og ein að setja sér markmið og áform í byggðamálum og hrinda þeim í framkvæmd.
    Ég vil beina fáeinum fyrirspurnum til hæstv. forsrh., sem er einn ráðherra viðstaddur þessa umræðu. Fyrst vil ég spyrja hann um nefndarállit og tillögur sérstakrar nefndar sem ráðherrann skipaði á sínum tíma, 9. júní 1992. Sú nefnd skilaði áliti 15. júlí á síðasta ári og gerði þar beinskeyttar tillögur um flutning ríkisstofnana. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað líður áformum hans og ríkisstjórnar hans um að hrinda þessum tillögum í framkvæmd? Er það svo, eins og ég gat um hér áðan, að ríkisstjórnin er búin að leggja þessa skýrslu til hliðar rétt eins og marga aðra málaflokka? Þetta er eitt af þeim málum sem kemst ekki að og menn eru búnir að gefast upp á að velta fyrir sér.
    Ég vil einnig spyrja um tiltekna tillögu úr þessari skýrslu. Þar leggja nefndarmenn til, þar á meðal hv. 5. þm. Austurl. sem hér gengur fram hjá, að Byggðastofnun verði flutt til Akureyrar. Ég heyri hins vegar og sé í skýrslu stjórnar Byggðastofnunar að stjórnin er ósammála þeirri tillögu og vill fara aðra leið. Hún vill hafa höfuðstöðvar stofnunarinnar í Reykjavík en koma upp útibúum úti á landinu. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Hvorri skoðuninni fylgir hann og hvað líður þá að hrinda þeirri skoðun í framkvæmd sem hann aðhyllist í þessu máli?
    Ég tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. greini þingheimi frá því hvaða skoðun hann hefur á tillögu sem nefnd sem hann sjálfur skipaði leggur fram. Hann minntist ekkert á skoðun sína á þessu máli þegar hann mælti fyrir ársskýrslum stofnunarinnar. ( ÓÞÞ: Það verður sérstakur dagskrárliður helgaður fyrrv. forseta þingsins.) Já, það má vera að menn hafi svo mikið við og ekki skal ég leggjast gegn því.
    Þá langar mig að spyrja hæstv. forsrh. annarrar spurningar. Hún er um álit og tillögur annarrar nefndar sem ráðherrann skipaði í febrúar/mars á síðasta ári, 1993. Í þá nefnd voru skipaðir þrír menn og fyrir henni fór Baldur Guðlaugsson, sérstakur fulltrúi forsrh. Hún átti að skoða atvinnuástand og stöðu fyrirtækja á norðanverðum Vestfjörðum og gera tillögur til úrbóta.
    Ég hef frétt það að sú nefnd hafi skilað áliti og ég veit til þess að menn hafa reynt að fá það álit en ekki fengið. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Er það rétt að sú nefnd, sem á sínum tíma var kölluð bjargráðanefnd, hafi skilað áliti? Er hægt að fá það upplýst hvað í því áliti stóð og hvaða tillögur þar eru á ferðinni?
    Ég tel þýðingarmikið að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því á hvern veg þessi nefnd hefur skilað sínum tillögum og hverjar þær tillögur eru.
    Þá spyr ég enn um vinnu manna sem mér skilst að ráðherrahópur núv. ríkisstjórnar hafi sett saman til þess að skoða ástandið á Vestfjörðum í heild og koma fram með tillögur til úrbóta þar. Hvað er að frétta af starfi þeirra manna sem það verk hafa með höndum? Og mun ríkisstjórnin leggja fram einhverjar tillögur á grundvelli þess og þá hvenær?
    Ég vænti þess að hæstv. forsrh. geti veitt greið svör við þessum einföldu spurningum þar sem menn eru fyrst og fremst að spyrja um efndir á því sem hann hefur sjálfur ákveðið að hrinda af stað.
    Þá spyr ég hæstv. forsrh. um eitt atriði enn. Hann hefur ákveðið með sinni ríkisstjórn að standa við ákvörðun um hversu mikinn þorsk megi veiða á yfirstandandi fiskveiðiári. Gott og vel. Það er ákvörðun sem menn taka og við skulum ekki deila um hana, hvorki hér né annars staðar að sinni. En það er ákvörðun sem hefur áhrif á atvinnulífið. --- Ég vil ekki trufla hæstv. forsrh. í spjalli hans við aðstoðarmann sinn en mér þætti betra ef hann hlustaði á mál mitt. --- Þegar stjórnvöld ákvarða hversu mikinn afla megi veiða þá eru stjórnvöld jafnframt að ákvarða hversu miklar tekjur fyrirtækin geta haft. Og þegar aflinn er skorinn niður um fjórðung þá eru menn að skera niður tekjurnar og þá verða menn, af því að stjórnvöld taka ákvörðunina, að koma með framhaldsaðgerðir því fyrirtæki sem ber sínar skuldbindingar og skuldir og er svipt hluta af sínum tekjum, og við skulum segja á réttmætum forsendum og ekki deila um það, ræður ekki við að standa undir sínum skuldum að óbreyttum forsendum. Þarna verða stjórnvöld að koma með svör því ég geri ekki ráð fyrir því að bankakerfið telji sig ráða við það að eigin frumkvæði og án nokkurs atbeina ríkisstjórnarinnar að leggjast í miklar skuldbreytingar eða niðurfellingu vaxta, t.d. um eitthvert skeið sem að sumu leyti væri eðlilegt að menn veltu fyrir sér. Því ef tekjurnar eru teknar frá mönnum um ákveðinn tíma þá er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér að menn taki ákveðinn þátt af skuldunum eða kostnað vegna skuldanna á tilteknum tíma frá þessum fyrirtækjum.
    Þetta er auðvitað vandmeðfarinn þáttur en ég tel að menn ættu að skoða þetta og reyna að koma saman heilsteyptum tillögum byggðum á þessum hugsunum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort á döfinni séu einhverjar aðgerðir af þessu tagi.
    Þá er svo sem hægt að fjalla almennt um byggðamál, hlutverk Byggðastofnunar og fjármagn sem menn veita í þennan þátt. Aðrir hafa komið inn á það mál og ég hugsa mér að spara mér það til síðari tíma. Ég vil þó segja að ég er ekki sannfærður um að menn séu á réttum stað með þessa umræðu eða á réttum stað með fyrirkomulag þessara mála í Byggðastofnun. Það segir sína sögu um hvaða stöðu það veitir mönnum að sitja í stjórn Byggðastofnunar og við sjáum það bersýnilega þegar við horfum á það hverjir skipa stjórnina og hafa raðað sig í hana á undanförnum árum. Það eru alþingismenn. Af hverju vilja þeir fara í stjórn Byggðastofnunar? Það er af því að það þjónar þeirra hagsmunum. Þeir telja það þjóna sínum hagsmunum að geta haft áhrif á kjósendur og að sjálfsögðu vilja þeir koma góðu til leiðar þar að auki. En er það eðlilegur hlutur að setja upp stofnun þar sem menn raðast svona inn? Ég er ekki viss um það. Við eigum alla vega ekki að mínu viti að slá því föstu að við séum á réttum stað með þetta skipulag.
    Þá vil ég taka undir það sem fram hefur komið varðandi atvinnumál. Menn þurfa að hafa nokkuð öflugan áhættulánasjóð ef nýsköpun í atvinnulífi eða endurskipulagning á að geta orðið með sæmilega myndugum hætti. Þar held ég að menn hafi verið á villigötum að draga úr öllu slíku.
    Fleira vil ég ekki segja að sinni, virðulegi forseti, enda tíminn svo gott sem liðinn.