Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:01:25 (4293)


[13:01]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það svo að hæstv. ráðherra muni svara öðrum spurningum mínum síðar í þessari umræðu en um niðurskurðinn á aflaheimildunum og hlutverki stjórnvalda í framhaldi af því er rétt að fara nokkrum orðum.
    Ég hef ekki haft uppi gagnrýni á það að menn fari varlega í að ákvarða fiskveiðiheimildir og ég ætla ekki að gera það hér að menn velji það frekar að láta vafann liggja þeim megin sem hann liggur í dag og fara varlega í ákvarðanatöku. En hitt verða menn að gera sér grein fyrir að ákvarðanir sem teknar hafa verið koma misjafnlega við, þær koma misþungt niður á fyrirtækjunum. Á suðvesturhorni landsins jukust fiskveiðiheimildir sumra fyrirtækja frá því sem hafði verið áður á sama tíma og þær féllu verulega annars staðar, jafnvel allt að 25%. Það kallar á það sem stundum hefur verið kallað sértækar aðgerðir. Menn geta ekki vikið sér undan því. Það er ekki hægt að ætlast til að þeir sem reka fyrirtækin sem verða fyrir hinni miklu skerðingu geti einir og óstuddir komist út úr þessu tekjufalli. Þá þurfum við að hugsa um málið á grundvelli byggðarlaganna því fari svo sem sums staðar hefur gerst að fyrirtækin geta það ekki og fara á hausinn, þá hefur það komið upp að fiskveiðiheimildirnar hafa farið. Ég nefni Bíldudal þar sem togarinn var seldur til Grundarfjarðar, ég nefni Tálknafjörð þar sem togarinn var seldur til Vestmannaeyja. Því þegar þorskveiðikvótinn fer að aukast aftur þá eykst hann ekki á þeim stöðum þar sem þessir togarar voru heldur á nýju stöðunum þar sem þeir eru núna.