Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:08:45 (4298)


[13:08]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið komið inn á verulega tekjuskerðingu vegna samdráttar í fiskveiðum og forsrh. sagði, sem rétt er, að þingmenn hefðu viljað taka undir þetta. Ég bæti þó við að það eru ekki allir þingmenn samt. En væri ekki tímabært yrðu sjómenn og fiskvinnslufólk að lækka í tekjum að allir aðrir fylgdu að sama skapi? Ætli yrðu þá ekki nokkuð aðrar undirtektir víða í þessu landi ef slík aðferð yrði tekin upp. Ég segi þetta hæstv. forsrh. til umhugsunar.
    Út af ummælum hv. 5. þm. Vestf. um að það sé eitthvað óeðlilegt að Alþingi velji þingmenn í stjórn t.d. Byggðastofnunar. Hún er ekki svo burðug að það hafi verið úr miklu að moða. En hafa ekki ákveðnir flokkar á Alþingi valið menn í stjórn Húsnæðisstofnunar? Er það ekki rétt munað hjá mér að hv. þm. eigi þar sæti? Það getur vel verið að það sé rangminni en hann leiðréttir það þá.
    Barðist hv. þm. fyrir því að formaður þingflokks Alþb. færi í stjórn Byggðastofnunar? Það væri gaman að hann segði okkur frá sinni hetjulegu baráttu innan þingflokks Alþb.