Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:10:55 (4299)


[13:10]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Skoðun mín er sú að það eigi að draga úr því að þingmenn sitji í stjórnum stofnana sem hafa umleikis mikið fé og útdeila því. Sú skoðun breytist ekki þótt að menn geti bent á dæmi um að annað sé annars staðar en í þeirra eigin tilviki. Mér er það alveg ljóst að ég sit í stjórn Húsnæðisstofnunar. Það breytir ekki mínum skoðunum. Ég tel eftir sem áður að það eigi að draga úr þessu og það sem ég sagði var að ég væri ekki viss um að menn væru á réttum stað með þetta skipulag hvað varðar byggðamálin. Ég vil ekki upplýsa hv. 1. þm. Vestf. mikið um umræður innan þingflokks Alþb. og ég held að ég leiði það hjá mér að svara því. En ég vil þó upplýsa hann um að það hefur legið fyrir nokkuð lengi af minni hálfu að ég vildi að það yrði skipt um stjórnarmann í Húsnæðisstofnun.