Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 13:59:31 (4301)


[13:59]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þegar ég lauk máli mínu við fyrri umferð var ég að ræða um hvernig þróunin hefði verið í fjárveitingum til stofnunarinnar og vék að landbúnaðarmálunum vegna þeirra orða sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafði látið falla. Ég vil aðeins bæta því við hvað landbúnaðinn varðar að mismunurinn á framlögum til landbúnaðarins samkvæmt fjárlögum á árunum 1992 og 1994, til viðbótar þessu, er hvorki meira né minna en yfir 3 milljarðar kr. Menn geta því séð hvernig búið er að þessari grein og hversu erfitt það mun reynast að standa af sér þau áföll sem yfir þessar greinar ganga, bæði landbúnaðinn og sjávarútveginn, þegar svona er að málum staðið.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í gegnum tíðina hefur stjórn stofnunarinnar og stjórnarmenn hennar æðioft verið gagnrýnd fyrir einstök verk. Svo mun það ætíð verða og stjórnarmenn hafa ekki kveinkað sér svo mjög undan því. Meira að segja hafa hæstv. ráðherrar vikið orðum að stofnuninni og vil ég aðeins víkja að því hér síðar --- það var hæstv. ráðherra Friðrik Sophusson. En það eru fleiri sem hafa fjallað um þessi mál og vikið að stofnuninni og ákveðin blöð hafa haft það sem fastan lið að veitast að stofnuninni og ákveðnum aðgerðum hennar.
    Þessa dagana eru mjög gleðilegar fréttir að berast í sambandi við loðdýrarækt á Íslandi sem Byggðastofnun vissulega tók þátt í að styðja og styrkja og byggja upp. Hún átti þar ekki ein hlut að máli eins og allir vita. Þar komu fleiri til með myndarlegum stuðningi. En því miður var það svo að þessi grein mátti þola það að ganga í gegnum erfitt tímabil þar sem verðfall á afurðum var mikið og lægðin var bæði djúp og löng. En þegar lagt var af stað með þessa grein verður að segjast að þá var útlitið ekki svo slæmt. Útlitið þegar lagt var af stað var nefnilega nákvæmlega eins og það er í dag í verði. Þegar verðfallið var hvað mest í þessari grein voru refaskinnin seld á um 1.200 kr. en eru komin í dag í rétt um 7.000 kr. Þannig var það þegar lagt var af stað. Sama má segja um minkaskinn. Þau fóru niður í lægðina þegar hún var hvað dýpst niður í 700--800 kr. er eru nú komin í um 2.000 kr. skinnið. Þetta eru gleðileg tíðindi og þetta eru nokkurn veginn þau verð sem voru þegar lagt var af stað. Afkomumöguleikarnir í greininni voru einmitt byggðir á þessum tölum. Það er þess vegna létt að setja sig í dómarasætið og dæma þá alla, ég veit ekki hvað á að segja, sem að þessu hafa staðið eins og því miður hefur oft verið gert. Ég man eftir einni af forustugreinum Alþýðublaðsins þar sem sagði í yfirskrift með tröllslegu letri . . .  ,,að refabændum og öðrum niðursetningum ríkisforsjárkerfisins``. Þetta var ritstjórnargrein Alþýðublaðsins og svo var fjallað um þessa atvinnugrein og þá sem í henni starfa á svipaðan hátt.
    En sem betur fer er þessi atvinnugrein nú að rétta við og ég trúi því að hún eigi góða framtíð fyrir sér. Það er ekki aðeins að íslenskir bændur hafi sannað það að þeir geti ræktað upp góðan stofn. Íslendingar eiga trúlega eina ósýkta loðdýrastofninn í heiminum. Íslensk loðdýraskinn hafa náð miklum gæðum en því miður fóru þau niður um tíma þegar lífdýrasalan var jafnmikil. Þá fóru þau niður en nú eru þau komin upp að nýju og styrkja mjög það verð sem ég gat um.
    Mönnum finnst það kannski vera bjartsýni, en það eru fleiri en ég sem hafa trú á því að íslenskir loðdýrabændur eigi í vaxandi mæli eftir að njóta þess að geta selt lífdýr til útlanda. Ekki bara vegna gæðaskinna heldur fyrst og fremst vegna þess að okkur hefur tekist að viðhalda ósýktum stofni.
    Þannig gengur þetta nú fyrir sig. Við þurfum auðvitað í þessum greinum eins og öðrum að búa okkur undir það að mæta harðri samkeppni og þessi grein mátti þola það. Vissulega má segja að það hafi verið farið of geyst víða og það er staðreynd í málinu. Menn fóru of hratt. En mikil þekking er þegar í landinu og mikil fjárfesting sem liggur nú ónotuð þannig að hér eru vissulega möguleikar.
    Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson fór hér hamförum ekki fyrir löngu síðan og sagði, með leyfi hæstv. forseti, og var þar að víkja að fjárveitingum Byggðastofnunar til nýgreina í atvinnulífinu hér á landi, að stjórn og stjórnendur Byggðastofnunar skulduðu Alþingi skýringar á miklum útlánatöpum stofnunarinnar á undanförnum árum. Þá var hæstv. ráðherra að tala m.a. um loðdýraræktina og sagði að við skulduðum honum skýringar. Hæstv. ráðherrann má þó vita það að hann hefur eins og aðrir þingmenn alla tíð haft aðgang að öllum þeim lánum sem Byggðastofnun hefur veitt og liggja á borðum þingmanna nú fyrir sl. ár. En var það svo? Var það stjórn Byggðastofnunar sem ein stóð að þessu? Hvað skyldi bunkinn hafa verið þykkur sem Byggðastofnun var sendur úr ráðuneytum fyrst og fremst kannski úr forsrn. til þess að verða við þeirri atvinnuuppbyggingu sem varð víða um landið?
    Ég er hér með bréf, dags. í júní 1988, undirritað af þessum sama ráðherra, Friðriki Sophussyni, þar sem hann er að skrifa Byggðastofnun bréf og fara fram á að Byggðastofnun grípi til aðgerða til styrktar þessari atvinnugrein. ( ÓÞÞ: Var þá forsrh.) Þá skrifaði hann í forföllum forsrh., var þá settur forsrh. Ég er hér með þykkan bunka af bréfum úr ráðuneytunum með tilmælum til stjórnar Byggðastofnunar um að verða við því að veita fjármagn til þessara nýgreina. Svo koma ráðherrar slíkrar ríkisstjórnar og veitast með offorsi og ósanngirni að stjórnarmönnum stofnunarinnar.
    Sama á auðvitað við um 2. gr. sem er fiskeldið á Íslandi í dag. Fiskeldið á Íslandi hefur fengið sömu umfjöllun. En fiskeldið hefur líka mátt ganga í gegnum sömu þrengingar og loðdýraræktendur hafa mátt gera í sambandi við verðfall afurða. Eldislaxinn er t.d. á 61% lægra verði 1992 en hann var árið 1987. Og hvað segir í Fjármálatíðindum um þessa nýju grein? Rótinni að raunasögu íslenskra fiskeldisfyrirtækja er lýst í stuttu máli í Fjármálatíðindum Seðlabankans. Þar kemur í ljós það sem ég var að segja hér um lækkun á meðalverði. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því hvernig komið er fyrir þessari atvinnugrein. Það er verðfall afurðanna. Og það hafa fleiri greinar en loðdýrarækt og fiskeldi mátt þola það.
    Ég er hér með úrklippu úr blaðagrein sem skrifuð var árið 1983, úr því blaði sem oftast og mest hefur veist að starfsmönnum og stjórn Byggðastofnunar sem er DV. Þá skrifar ritstjóri þess blaðs, með leyfi hæstv. forseti: ,,Vormenn Íslands að verki.`` Greinin hefst svo:
    ,,Ein efnilegasta atvinnugrein á Íslandi er fiskeldi. Það hefur eflst hröðum skrefum undanfarin ár. Einkum er þar dýrmætur laxinn sem hefur orðið viðfangsefnið.``
    Þetta er upphafið að Dagblaðsgreininni. Og endirinn er hvernig? Hann er svo, virðulegur forseti: ,,Fjöldi Íslendinga hefur af dugnaði, hugviti og þekkingu gengið fram fyrir skjöldu í fiskeldi. Það starf er nú smám saman að bera árangur í vel þegnum gjaldeyristekjum á erfiðum tímum. Þar eru vormenn okkar að verki.``
    Þetta var ritstjórnargrein Dagblaðsins árið 1988. En árið 1991 skrifar sama blað, með leyfi forseta: ,,Rústir fiskeldis.`` Og hvernig byrjar greinin?
    ,,Gjaldþrot fiskeldisstöðvanna kemur ekki á óvart. En það kemur hins vegar á óvart hvað þessi rekstur hefur verið gjörsamlega vonlaus frá upphafi. Hvílíkur óvitaskapur hefur ráðið ferðinni og hvers konar allsherjarglóruleysi hefur einkennt allan undirbúning og uppbyggingu. Það er eins og menn hafi vaðið blindandi út í foraðið.`` --- Segir í ritstjórnargrein sama blaðs. Og aðeins neðar segir, með leyfi forseta: ,,Á sama tíma og dauðadómur er kveðinn upp yfir fiskeldi gegnir sama máli um ullariðnaðinn og eitt annað fyrirtæki, Síldarverksmiðjur ríkisins.``
    Það er ekki eðlilegt að okkur gangi vel þegar talað er um þessar nýgreinar á jafngáleysislegan hátt og hér er gert.
    Ég gæti vitnað í miklu fleiri greinar bæði dagblaðaritstjóra og ráðherra. Ég hef oft verið undrandi á því hversu menn hafa talað gáleysislega í þessum efnum. Staðreyndin er nefnilega sú að ef við skoðum fiskeldið eitt þá er það staðreynd að þar eru möguleikar okkar Íslendinga vissulega glæstir. Og það er staðreynd í málinu að nær öll aukning í framboði á fiski til manneldis mun í framtíðinni fást í fiskeldi. Þetta er staðreyndin í dag. Það er talað um að fram að aldamótum muni verða mikil aukning á eldisframleiðslu í heiminum og hún muni jafnvel þrefaldast til fjórfaldast á næstu rúmlega 20 árum. Eldisframleiðslan á Ísland er nú u.þ.b. 3.000 tonn og framleiðsluverð rétt tæpur milljarður. Í Noregi eru hins vegar framleidd um 165--180 þús. tonn, að verðmæti hvorki meira né minna en 50--60 milljarðar í ísl. kr. á ári.
    Ef framleiðslan hér á landi væri í hlutfalli við framleiðslu Norðmanna, t.d. við þá höfðatölu sem okkur er gjarnt að miða okkur við, þá værum við að framleiða hér um 8.000--9.000 tonn, að verðmæti hvorki meira né minna en 2,5--3 milljarðar kr. Í þeim mannvirkjum sem nú eru til á Íslandi mætti trúlega

framleiða um 6.000 tonn af eldisfiski fyrir framleiðsluverðmæti sem nemur um 2 milljörðum kr., bara í þeim mannvirkjum sem við eigum í dag. Þessi starfsemi mundi skaffa líklega um 400 ársverk fyrir utan margfeldisáhrifin sem af þessu mundu hljótast. Árið 1992 voru framleidd hér á landi um 27 kg á hvern rúmmetra í kerum en 20 kg árið áður. Árangurinn er hvorki meira né minna en um 35%. Þetta sannar okkur að hér eiga sér stað stórkostlegir hlutir.
    Það er engin spurning í mínum huga að báðar þessar atvinnugreinar og fleiri af nýgreinum sem Byggðastofnun hefur verið að reyna að festa hér í sessi eiga sér framtíðarmöguleika. En það þurfa fleiri að koma til að styðja stofnunina í slíkum störfum og við biðjum um skilning stjórnvalda á því að þetta þarf að styðja og möguleikar þessara atvinnugreina eru vissulega miklir.