Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 14:15:32 (4302)


[14:15]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég las hér upp bréf frá einum af forustumönnum Sjálfstfl. á Vestfjörðum í sveitarstjórnarmálum. Ég hygg að hæstv. forsrh. þekki það vel til manna að það þurfi ekki að taka það fram að Eiríkur Finnur hefur verið í kapparúmi hans liðsmanna á Vestfjörðum um alllangt tímabil. Hann er í dag stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða. Sú mynd sem hann dregur upp er sönn. Það er búið að taka ákvörðun um að skerða þorskveiðarnar. Það var ekki farið í að skerða í þorskígildum sem hefði jafnað þeirri byrði heldur voru þorskveiðarnar sjálfar sem slíkar skertar á þann hátt að þunginn lenti mestur að sjálfsögðu á aðalþorskveiðisvæðunum. Það er búið að lýsa því yfir að kvótinn verður ekki aukinn. Afkastamestu atvinnutæki landsins eru hraðfrystihúsin. Þessi hraðfrystihús þurfa hráefni. Hæstv. forsrh. á enga leið aðra betri að mínu mati til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað en beita ríkisábyrgðum til kaupa á fiski, frystum þorski frá Rússlandi, til að tryggja að þessi atvinnutæki þjóðarinnar hafi verkefni fram á haust.
    Sú þjóð sem standur þannig að sínum málum að hún veitir ótakmarkaðar ríkisábyrgðir út á íbúðarhúsnæði fólksins en telur að atvinnulífið megi hrynja gerir sér ekki grein fyrir því, eða forustumenn hennar, að þeir verða skammir dagar víns og rósa með þeirri stefnu. Þeir verða stuttir dagar víns og rósa með þeirri stefnu.
    Mér er ljóst að mjög mörg fyrirtæki hafa haft efni á að kaupa Rússafisk og eru farin að vinna hann. Hér er um tvífrystingu að ræða. Önnur hafa hreinlega enga möguleika á að kaupa þennan fisk vegna þess að staða þeirra er slík í dag. Á dögum viðreisnarinnar eftir gengisfellinguna miklu þegar flestöll frystihús Vestfjarða voru komin á hausinn og atvinnuleysi var um land allt þá áttu þó þessir tveir flokkar sem nú stjórna landinu menn sem þorðu að setja hjólin af stað á nýjan leik. Það er munurinn. Og hvað gerðu þeir? Þeir settu fjármuni til að koma frystihúsunum af stað á nýjan leik. Það þýðir ekkert að segja: Það er ekki fiskur í sjónum. Það þýðir ekki að segja þetta fram og aftur. Það er nægur fiskur til sölu í Rússlandi til að kaupa. Við höfum frystihúsin, við höfum fólkið til að vinna þennan fisk, við höfum flutningatækin til að flytja hann á markað, við höfum sölukerfið til að selja þennan fisk. Og ef við ekki seljum hann þá munu aðrir ryðjast inn á okkar þorskmarkaði vegna þess að við höfum ekki fisk til að selja. Það eru staðreyndirnar sem blasa við.
    Ég skora á hæstv. forsrh. að gefa sér stund til að setjast niður og hugleiða það hvort það sé tilfellið að það eina sem hægt sé að gera af viti í þessu landi sé að láta Atvinnuleysistryggingasjóð gefa peninga til Granda til að setja þar loðnufrystingu af stað. Ég hygg að það hafi verið rétt ákvörðun. Ef til vill ekki frá sjónarmiði sjóðsins, en frá þjóðhagslegu sjónarmið var hún rétt. En er það hið eina sem vit er í að gera með opinberum stuðningi? Ætli það sé ekki svo að það sé meiri skynsemi að koma frystihúsunum í landinu af stað með eðlilegan rekstur og tryggja að atvinnulífið haldi velli svo ekki þurfi að moka út hundruðum milljóna og milljörðum til þess að greiða kostnaðinn af atvinnuleysinu? Það var vissulega happ núv. ríkisstjórnar að það voru til peningar í þeim sjóði. Það var vissulega happ. Og ef menn halda að það hafi verið náttúrulögmál að það var atvinna í landinu þau 20 ár sem Framsfl. var við völd en atvinnuleysi í Evrópu þau 20 ár, þá er það misskilningur. Það er rétt að það töpuðust milljarðar vegna þess að menn settu þá í atvinnulífið á 20 árum. Núv. ríkisstjórn mun tapa meira fé í atvinnuleysisbæturnar á fjórum árum en tapaðist á hinum 20 með óbreyttri stefnu. Og það sem meira er, ríkissjóður mun vera rekinn með slíkum dúndrandi halla áfram að það er spurning hvenær stefnir í ríkissjóðsgjaldþrot með sömu stefnu. Og hæstv. fjmrh. er steinhættur að láta birta mynd af sér í einu einasta blaði án þess að hann sé skælbrosandi af sælu yfir stöðu ríkisfjármálanna.
    Íslenska þjóðin er í sömu stöðu og stórt heimili. Ætlar hún að hafa suma aðgerðalausa uppi í rúmi, geyma þá þar eins og karlægt fólk var geymt í gamla daga eða ætlar hún að standa að því að skipa sínu fólki til verka? Það er þar á milli sem skilur. En þegar fyrirtækin eru komin jafnlangt niður og þau eru komin í dag þá hafa þau ekki möguleika til þess að láta hjólin fara að snúast með eðlilegum hætti. Oddviti þeirra Flateyringa veit hvað það er að vera kominn í þessa stöðu. Fyrirtækið Hjálmur á í sínum erfiðleikum. Ég nafngreini það ekki vegna þess að það eigi í meiri erfiðleikum en aðrir. Það var hrunið í Bolungarvík, það er hrunið á Flateyri, það var hrunið á Súgandafirði þar á undan. Það er stopp á Bíldudal og á Patreksfirði er atvinnuleysi.
    Spurningin er aðeins: Er hægt að sitja hjá og horfa á þessa hluti? Ég játa að ég var einn af þeim

sem fóru hljótt, féllu undir leyndina. Ég vildi ekki fara í það að auglýsa stöðuna vestra of mikið í sölum þingsins vegna þess að þá fannst mér að ég væri kannski að vega að þeim mönnum Vestfjarða sem væru að vinna að því að koma hlutunum af stað. En það er ekki hægt að bíða lengur. Það er atvinnuleysi sem blasir við, það er hrun og það eru gjaldþrot. Og þeir ungu sjálfstæðismenn sem komu hér inn á þing við síðustu kosningar og töluðu um kapítalisma, þeir eru huglausari en Jeltsín í að framkvæma kapítalisma. ( StG: Enda orðnir gamlir.) Þeir eru svo huglausir að þeir þora ekki að láta krónuna skrá sig á frjálsum markaði. Það var það eina sem þeir voru sammála um, að það skyldu vera þeir sem sæju um að skrá gengi krónunnar, það skyldi markaðurinn ekki gera. Hvers vegna? Voru þeir hræddir um að þjónustufyrirtæki eins og Landsvirkjun yrðu ekki borgunaraðilar fyrir sínum skuldum ef þeir þyrftu að kaupa hinn erlenda gjaldeyri af íslenskum sjávarútvegi á því verði sem þyrfti til að sjávarútvegurinn héldi velli? Það er nefnilega kostulegt að þannig skuli að málum staðið að þjónustufyrirtækin eigi stöðugt að geta vaðið áfram og reiknað sér út rekstrargrundvöll og staðið á því að þau þurfi þetta, hinir verði svo bara að éta það sem úti frýs. Þannig er búið að ganga frá málum Landsvirkjunar. Hún þolir ekki kyrrstætt verðlag í þessu landi. Hún skríður bara áfram og upp. Hvers lags yfirstjórn er það? ( StG: Byggja flugvelli.) Hvað er verið að gera? Það er búið að byggja flugvelli á hálendi Austurlands, það er búið að byggja jarðgöng þar einnig, sem álfar og tröll ein búa í því mennskir menn þurfa ekkert að vera þar á ferðinni. ( StG: Það er þægilegt fyrir jólasveininn.)
    Nei, það er alveg óhugnanleg staðreynd að þegar kemur að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, og þegar talað er um rekstrargrundvöll fyrir þá grein, þá er eins og það komi hér einhver kór sem segir: Þetta eru allt asnar og vitleysingar sem þarna starfa. Þess vegna er svona komið. En hver er skýringin á mestu offjárfestingunni sem til er á Íslandi í orkugeiranum? Voru það þá allt asnar og vitleysingar líka sem stóðu þar við stýrisvölinn? ( StG: Hverjir stóðu þar?) Eitt mesta sjéní þessarar þjóðar var sett yfir íslenskan iðnað, stillti kompásinn og svo voru greiddar útflutningsbætur með honum og hann sendur til Finnlands. Ég veit ekki hvort fraktin er farin.
    Nei, það verður einhvern veginn að stuðla að því að blóðið renni í íslenskum ráðherrum þannig að þeir geri sér grein fyrir skyldunni. Núv. hæstv. iðnrh., Sighvatur Björgvinsson, talar um að það þurfi að verja íslenskan skipasmíðaiðnað eins og þetta séu ný sannindi. Hversu oft var ekki minnst á þetta í ráðherratíð forvera hans? ( StG: Og hans sjálfs.) Nú er talað um að það þurfi að gera þetta þegar allt er hrunið.
    Ég skora á hæstv. forsrh. að forðast nú um nokkra stund það lið sem við sjáum svo gjarnan í kringum ,,Yes, Minister`` í bresku gamanmyndunum. Það er liðið sem er samþjappað til þess að koma í veg fyrir að ráðherrann fari á flakk um ráðuneytið og því síður að hann fari á flakk meðal þjóðfélagsþegnanna. Þetta lið passar upp á það að upplýsingastreymið til ráðherrans sé ekkert annað en eftir ákveðinni línu sem þeir sjálfir ákveða og það er óhugnanlega mikill sannleikur í þessum myndum. Ég hef horft á þónokkuð marga af þessum þáttum og aðeins einu sinni náði ráðherrann sér á strik. Aðeins einu sinni. ( Gripið fram í: Þá var hann orðinn forsætisráðherra.) Þá hafði ráðuneytisstjórinn álpast til að gera mistök sem ungur maður og hann náði í skottið á honum og lét hann dingla þangað til ráðuneytisstjórinn grét. Ég verð nú að viðurkenna að mér leið bara skratti vel þá stundina.
    En er það tilfellið að það sé svo að sumir af heilbrigðisráðherrum vors lands hafi verið sendir á ráðstefnur erlendis áður en þeir mættu á ríkisstjórnarfundi? Er það tilfellið að íslenskir ráðuneytisstjórar séu álíka færir í þessari grein sinni og þeir bresku, að passa upp á það að þekkingarstreymið til ráðherranna sé stöðvað?
    Ég skora á hæstv. forsrh. að setjast niður með sínu liði og láta reikna það út hvort hann á annan kost betri til þess að rjúfa atvinnuleysið og draga úr því, í það minnsta í sumar og það sem eftir er ársins, en þann að kaupa fisk til að tryggja að hægt sé að halda uppi fullri atvinnu eða mikilli atvinnu í frystihúsum landsins. Ég sé ekki aðra leið betri. Ég sé ekki annað sem ég get lagt til sem væri líklegra til að skila fyrr og betur árangri. Það er nefnilega svo að þegar búið er að taka atvinnulíf þvílíku kverkataki sem gert hefur verið á Íslandi þá fer það ekkert á fulla ferð á næstunni. Brennt barn forðast eldinn. Atvinnurekstur án þess að áhætta fylgi er ekki til, það vita allir aðilar. Markaðir sveiflast til. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst hverjum bjallan glymur, en ég hef líka í aðalatriðum lokið máli mínu.