Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 14:45:44 (4306)


[14:45]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér eru búnar að fara fram miklar umræður í dag um byggðamál og þessar skýrslur sem hér eru á dagskrá. Nú er það sérstakt þegar við ræðum byggðaskýrslur og stefnumótandi aðgerðir í byggðamálum að við þær aðstæður stynur öll byggðin á Íslandi. Það eru ekki bara einhver lítil þorp úti á landi sem eru að bíða afhroð. Það má segja að allt landið sé undir, allir þegnarnir hafa orðið fyrir barðinu á þeirri efnahagsstefnu sem hefur ríkt hér í rúm tvö ár, hæstv. forsrh. Hér hefur verið kreppa af manna völdum að stórum hluta. Að stórum hluta stafar kreppan kannski ekki af ásetningi en fyrst og fremst af því að stjórnendur skipsins hafa farið ranga leið á svo ótal mörgum sviðum. Og nú segi ég eins og fleiri: Ég fagna því að hæstv. forsrh. er að komast loksins á það stig að hann er farinn að játa mistök gerða sinna og sér að ýmsir þeir sem af heiðarleika gagnrýndu hann höfðu rétt fyrir sér á þeim tíma.
    Hér játaði hæstv. forsrh. þau mistök og kvaðst vilja beita sér fyrir því ef ég skildi hann rétt að reglugerð um Byggðastofnun yrði breytt á nýjan leik með þeim hætti að Byggðastofnun gæti komið tímabundið sem hluthafi inn í fyrirtæki. Ég minnist þess þegar þessi hæstv. forsrh., nýútsprunginn, fór í harðar deilur við gamalreyndan alþm. og fyrrv. ráðherra Matthías Bjarnason. Og kannski er þetta nú það mein sem við búum við í hnotskurn að vegna of lítillar reynslu af þjóðmálum gerðist það að hæstv. forsrh. naut ráða manna sem vildu fara þessar leiðir og fordæmdu allt sem gerst hafði í fortíðinni. Og það er auðvitað alvarlegur hlutur. En þökk sé hæstv. forsrh. að játa mistök sín og vilja snúa við. Þetta hefur hann gert á fleiri sviðum sem ég ætla kannski að koma að. En það getur verið of seint að iðrast eftir dauðann. Að vísu ætla ég það að hæstv. forsrh. eigi langa framtíð fyrir sér í pólitík en ég geri mér grein fyrir því að sú axarskaftaríkisstjórn sem hann hefur leitt hefur valdið honum þeim erfiðleikum að hann kannski nær því ekki á þeim stutta valdatíma sem hann á eftir að snúa blaðinu við á nýjan leik þótt vilji sé fyrir hendi.
    Hvað þetta varðar varð ég oft vitni að því í mínu kjördæmi og víðar um land að þegar Byggðastofnun kom um ákveðinn tíma sem hluthafi inn í fyrirtæki þá náðist tvennt: Í fyrsta lagi kom þar inn fjármagn og því fylgdi ráðgjöf og þekking og fyrirtækin náðu árangri. Mörg þessara fyrirtækja sem stofnað

var til með þessum hætti standa sterk í dag. Síðan hafði Byggðastofnun þá reglu að hún var tilbúin að selja hlutafé þegar fyrirtæki var orðið söluvara og snúa sér að næsta verkefni. Við sáum því árangur af þessari stefnu og ég vænti þess að hæstv. forsrh. hafi snarar hendur um að setja þarna nýja reglugerð.
    Undir umræðum sem þessum er mikið rætt um þjónustu, þjónustufulltrúa, ráðgjafa og fleira og fleira. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessu. En í mínum huga er aðalatriðið að atvinnulífið á Íslandi fái nýjar aðstæður og nýja vítamínsprautu, að atvinnulífið á Íslandi verði losað undan þeirri óvissu sem það hefur búið við og atvinnulífið á Íslandi fái að búa við sams konar aðstæður og atvinnulíf samkeppnislandanna og að með sama hætti hafi stjórnvöld hér kjark til þess að verja sína atvinnuvegi og efla þá til sóknar.
    Ég geri mér grein fyrir því að þegar við stöndum frammi fyrir atvinnuleysi 10 þúsund Íslendinga, þá er mikil neyð í þessu landi. Og við stöndum líka frammi fyrir því, hæstv. forsrh., að 17 þúsund Íslendingar búa erlendis um þessar mundir. Hvað væri nú ef þessir Íslendingar kæmu allir heim? Væri neyðarástand í landinu ef þeir vildu koma heim til fósturjarðarinnar? Erum við vegna atvinnustefnu okkar og efnahagsstjórnar að verða á því stigi að þessari þjóð mun fækka? Það er nefnilega sú spurning sem við stöndum frammi fyrir ef menn ekki bretta upp ermarnar að þá mun þessari þjóð taka að fækka. Og þess vegna verðum við í atvinnumálum að horfa til framtíðar og hæstv. forsrh. verður að láta af þeim ljóta sið sem hann hefur haft í tvö ár að horfa í sífellu með rógstali um allt sem hefur verið gert á síðustu 10 eða 20 árum.
    Það hefur margt gott verið gert síðustu 10--20 árin og sem betur fer hefur Sjálfstfl. verið þátttakandi í mörgu af því einnig. Þess vegna varðar okkur tiltölulega lítið um fortíðina þó að á ýmsum sviðum getum við lært af henni. Það er framtíðin sem skiptir okkur máli. Ég er sannfærður um það að ef við ætlum að ná árangri þá verðum við að fullvinna afurðir þessa lands og þá verðum við að gefa iðnaðinum á Íslandi nýjar aðstæður. Við höfum séð iðnaðinn á Íslandi í vaxandi mæli á svo mörgum sviðum færast í hendurnar á útlendingum. Við höfum meðan þessi ríksstjórn hefur ríkt horft á það eins og blindir menn að erlendir iðnaðar- og verkamenn hafa stolið af okkur verkefnunum og ekkert hefur verið gert. Nýjar nefndir, nýjar skýrslur, ný ráðherraviðtöl um hin og þessi verkefni sem engu skipta. Skipaiðnaðurinn er gleggsta dæmið um þetta. Alþfl. hefur ráðið iðnaðinum í 7 ár. Sá iðn.- og viðskrh. sem nú situr er farinn að ferðast um landið og segist vera að kynna sér málið. Þó liggur það fyrir staðfest að við höfum tapað 600 störfum, að skipaiðnaðurinn er að deyja út og menn vita nákvæmlega hvað þarf að gera til þess að snúa blaðinu við og reyna að festa þennan atvinnuveg með nýjum hætti í landinu. Nei, það skulu skipaðar nefndir og gerðar skýrslur þannig að það sem í rauninni vantar virðast vera vitsmunir og aðgerðir til þess að snúast til varnar og verja íslenska hagsmuni.
    Ég er líka sannfærður um það að atvinnuleysi á Íslandi á eftir að aukast ef menn hafa ekki kjark til þess að stöðva alla þessa frystiskipasmíði sem hefur viðgengist. Árið 1985 voru þrjú frystiskip, nú eru þau 43. Og við sjáum að menn eru að smíða hér skip fyrir milljarða til þess að leysa heilu sjávarþorpin upp og fara með þau á haf út þar sem þau verða að fiskiverksmiðjum, þar sem menn afla og setja fiskinn í geymslu og sigla svo með hann án þess að gera nokkuð nýtt við þessa afurð hér í landinu eða skapa nokkru verkafólki í sjávarþorpunum vinnu við að fullvinna þessa afurð. Það verður nefnilega á mörgum sviðum að ná saman um þetta stóra verkefni. Þar verður ríkisstjórnin að vera leiðandi. Þar verða sjóðirnir og bankastofnanir að vera í samstarfi. Þar verða aðilar atvinnulífsins að vera ábyrgir. Hvaða glóra er í því að Vinnuveitendasambandið skuli sætta sig við þetta framferði, t.d. í skipasmíðaiðnaðinum? Að þessi iðnaður skuli vera að deyja út á Íslandi. Auðvitað spyr maður sig að því, er það enn rannsóknarvirði? Fá þessir útgerðarmenn sem láta smíða skipin erlendis einhverja þá peninga undir borðið sem hvergi koma fram? Hvers vegna vilja þeir taka þátt í því að erlend fyrirtæki undirbjóði? Hvers vegna vilja þeir standa frammi fyrir því að þeir geta ekki einu sinni látið gera við sín skip í landinu?
    Síðan vík ég að öðru. Þá er enginn vafi á því að samdrátturinn í íslenskum landbúnaði á stóran þátt í því atvinnuleysi sem hér hefur ríkt. Menn hafa verið að tala um það að samdrátturinn ráði jafnvel því að 2--3 þúsund manns séu nú atvinnulaus. Þess vegna spyr maður hæstv. forsrh. hvort hann hafi t.d. hugleitt það að allt í einu er hugsun heimsins orðin með öðrum hætti og allt í einu er kannski hugarfar Íslendinga að verða með öðrum hætti gagnvart íslenskum landbúnaði. Menn skilja að þetta er ekki bara vinna sem bændur stunda. Þetta er vinna sem gefur atvinnu í þorpum og bæjum landsins og hér í borginni líka. Markaðir eru að opnast. Við eigum hreint kjöt. Við eigum vistvænar afurðir og við erum að ná þeim árangri að íslenskir bændur eru komnir inn á markaði og þeir eru að fá 200 kr. fyrir sitt kg af kjöti eftir að búið er að vinna það í þessu landi. Þarf ekki núna við þessar aðstæður að velta því fyrir sér hvort eigi að taka á nýjan leik upp útflutningsuppbætur sem íslenskir bændur einir allra í Evrópu hafa verið sviptir, ekki af hæstv. núv. ríkisstjórn. Hvað mundu 300--500 millj. gera? Ef þær kæmu og hjálpuðu mönnum að flytja þessar afurðir út, hvað mundu þær skapa mörg störf í landinu? Hvað mundu þær auðvelda mönnum mikið að ná þeim markmiðum sem þarna liggja í loftinu? Mundu þær ekki auðvelda mönnum að finna þessa vistvænu markaði og fullvinna sig inn á þá, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum?
    Það er nefnilega athyglisvert, hæstv. forsrh., þegar við hugsum um það og þar liggja stór mistök, t.d. gagnvart íslenskri garðyrkju. Það er skólabókardæmi fyrir hæstv. forsrh. um það hvernig ekki á að standa að samningum um hagsmuni einnar þjóðar. Hæstv. utanrrh. gerði tvíhliða samning þar sem hann í

rauninni fórnaði eða setti í verulega hættu heilan atvinnuveg Íslendinga sem þeir eiga mikla möguleika í eða áttu fyrir vandræða tvíhliða samning. Þar á ég við gróðurhúsin og garðyrkjuna sem var fórnað til þess að þóknast Spáni, Portúgal og fleiri ríkjum. En þá getum við litið til nágrannanna sem eru margfalt öflugri en við, Svíar og Norðmenn. Þeir gerðu enga tvíhliða samninga um þær afurðir sem þeirra fólk vinnur við. Þeir ákváðu að taka inn til sín ýmsar afurðir sem þeir eru ekkert að framleiða. En við tókum inn á okkur án tolla svo margt sem er framleitt hér. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti hringir bjöllunni og vil ég ekki níðast á tímanum. Ég kveð mér þá fremur aftur hljóðs síðar.