Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:15:45 (4310)


[15:15]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Mér fannst nokkuð athyglisvert að þessar rúmu 16 millj. kr. væru vegna ábyrgða Árbliks í Garðabæ. Það flaug í gegnum huga minn þó ég þekki auðvitað ekkert hvað þar hefur legið að baki, kannski verið mjög gott og þarft verkefni, að þetta virðist þó þegar hafa fallið á Byggðasjóð en á þessum sömu tímum, sl. þrjú ár, hafa aðeins farið 15 millj. kr. til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni. ( ÓÞÞ: Þetta er allt vegna atvinnumála kvenna.) Já, vel má vera eins og ég sagði að þetta sé allt saman réttlætanlegt. En það er stundum gaman að velta fyrir sér tölum, til hvers þær eru og hvaða markmiði þær skila.
    Atvinnuráðgjafar í öllum kjördæmum segir hæstv. forsrh. að sé stefnan. Ég vil þá spyrja að því hvort það sé fyrirhugað að það verði áfram. Það hefur verið. Mér er kunnugt um að atvinnuráðgjafanum á Ísafirði hefur verið sagt upp störfum og ég spyr þá hæstv. ráðherra að því hvort það sé þá fyrirhugað að annar verði ráðinn í hans stað eða hvort það starf muni ekki verða til áfram.