Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:32:51 (4313)


[15:32]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Mér þótti illt að geta ekki verið hér í morgun og tekið þátt í umræðu um skýrslur Byggðastofnunar, því miður var ég upptekinn við önnur störf á vegum Alþingis.
    Þá voru ræddar reyndar tvær skýrslur og satt að segja orðið tímabært að ræða byggðamálin hér. Mér hefur þótt það falla niður allt of lengi og satt að segja hefur mér sýnst að hæstv. forsrh. hafi flokkað átak í byggðamálum sem eitt af þessum frægu fortíðarvandamálum. Ég vil því fagna því sem ég heyrði núna áðan að hæstv. forsrh. tekur undir að átak er nauðsynlegt í byggðamálum. Reyndar held ég að hann hefði getað tekið töluvert dýpra í árinni í sambandi við aðrar þjóðir því að staðreyndin er sú að tiltölulega miklu meira fjármagni er varið til byggðamála, t.d. hjá Norðurlöndunum öllum hygg ég, en hjá okkur og jafnvel gífurlega miklu fjármagni hjá Evrópusambandinu eins og við þekkjum af samningum við það. Hér hefur mér þótt að mjög hafi verið skorið við nögl og sú reglugerð sem var sett um Byggðastofnun sýndist mér a.m.k. í upphafi sett til að takmarka mjög hennar frelsi. Þess vegna sé ég ástæðu til að fagna því einnig að hæstv. forsrh. hefur nú gefið undir fótinn með það að draga þar nokkuð úr og t.d. að leyfa Byggðastofnun að verja fjármagni til þátttöku í atvinnufyrirtækjum sem hlutafé. Það tel ég ákaflega mikilvægt. Ekki síst ástæðu til að endurskoða slíkt þegar tekið er tillit til þess að æðimargir sjóðir og jafnvel bankar í landinu hafa farið út á þá braut.
    En nú er til umræðu hér till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997. Eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. þá er þetta byggt á breytingu sem ég beitti mér fyrir á lögum um Byggðastofnun vorið 1991 og sem var grundvölluð á tillögum nefndar sem var sett upp í þessu skyni. Þar var sem sagt lögð sú lína að Byggðastofnun færi í vaxandi mæli inn á áætlanagerð, m.a. svæðaáætlanir. Ég hlýt einnig að lýsa

stuðningi mínum við það sem hér kemur fram og reyndar þykir mér það mikil --- ef ég má orða það svo --- framför hjá hæstv. forsrh. að hann er nú kominn að áætlanagerðinni sem einu sinni var talið forboðið í anda frjálshyggjunnar. Allt er þetta vissulega batnandi. Engu að síður hlýt ég að segja að það eru nokkur atriði í þessari þáltill. sem mér þykir að þurfi töluvert að herða á jafnvel í meðferð nefndar. Hvað eru vaxtarstaðir? Ég minni á það að línan eða reglurnar fyrir gerð þessarar þál. og byggðaáætlunar var lögð í bréfi hæstv. forsrh. og þar er m.a. lögð áhersla á vaxtarstaði. ( Forsrh.: Vaxtarsvæði.) Vaxtarsvæði, já það er rétt, takk fyrir, vaxtarsvæði. Nú þetta er náttúrlega eins og í ljós hefur komið nánast útilokað að meta. Einnig má spyrja, því þar hygg ég vísað til þessa sama hugtaks í raun og veru þar sem segir í 3. lið hér ,,að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf``. Hvað er fjölbreytt atvinnulíf? Hvernig fellur t.d. suðurhluti Vestfjarða undir það? Þar er ekki fjölbreytt atvinnulíf. Er það vaxtarsvæði? Engu að síður er það þó svæði á landinu sem hefur líklega fært eins mikið í þjóðarbúið og hver annar landshluti eða hvert annað landsvæði.
    Í raun og veru vildi ég gjarnan heyra frá forsrh. hvernig hann lítur á slíkt mál. Þarna má segja að fiskveiðar og þjónusta við fiskveiðar séu nánast eina atvinnugreinin ásamt náttúrlega þjónustu við íbúana sem þar búa. Er þetta fjölbreytt atvinnusvæði? Fellur þetta undir þetta vaxtarsvæði? Ég tel að það eigi að fara afar varlega í slíka skilgreiningu, afar varlega. Ég endurtek aftur að það eru svæði hér á landi sem sannarlega eru ekki fjölbreytt að atvinnuháttum en hafa lagt drjúgan skerf, mjög mikinn skerf til þjóðarbúsins.
    Hér mætti vitanlega ýmislegt fleira nefna, tími minn er æðistuttur eins og er við umræður um þál. En ég vildi gjarnan koma því á framfæri við nefndina sem um þetta fjallar að í fyrsta lið d er talað um jaðarsvæði og horft þar til nýtingar náttúruauðlinda og ferðaþjónustu. Ég held að sauðfjárræktin sem er að vísu nefnd í greinargerð með þessari tillögu frá Byggðastofnun sem þriðji möguleikinn hljóti að falla undir nýtingarmöguleika á jaðarsvæðum. En ég vildi gjarnan ræða nokkuð um þar sem segir um áætlanagerðina sem ég fagna hér og þá sérstaklega svæðisbundnar áætlanir sem hæstv. forsrh. kom inn á. Mér finnst allt of losaralega til orða tekið. Hér er talað um að þær skuli vera samstarfsáætlanir viðkomandi svæðis og ríkis. En Byggðastofnun á að verka þar sem eins konar samræmingaraðili. Ég tel að það sé ákaflega mikil þörf fyrir slíkar áætlanir nú af atvinnuástæðum á vissum svæðum þessa lands og þar þurfi að koma til mjög ákveðin og markviss forusta. Ég nefni t.d. svæði eins og Suðurnesin. Þar hefur að vísu tekist að draga nokkuð úr aðsteðjandi vanda með því, við skulum bara orða það svo, að fá fram tveggja ára samning við varnarliðið, ég vil ekki taka dýpra í árinni en það, sem leysir að einhverju leyti þetta aðsteðjandi vandamál. En hver á að hafa forustu um að gera þarna vandlega undirbúna og ítarlega áætlun sem stuðlar að fullri atvinnu sem næst eins og hægt er á þessu svæði þegar varnarliðið dregur enn meira úr sínum umsvifum eða jafnvel fer, sem ég held að hljóti eiginlega að vera hverjum manni ljóst að hlýtur að koma að? Við drögum ekki Bandaríkjamenn hingað nauðuga árum saman. Og þarna eru alveg gífurleg tækifæri til, þarna er fjölbreytt atvinnulíf eða getur þróast. Þarna er Keflavíkurflugvöllur sem er ein mikilvægasta og einhver stærsta fjárfesting í einu ef ég má kalla það atvinnufyrirtæki hér á landi. En þarna þarf mjög mikið fjármagn til að notum komi, mjög mikið fjármagn. Og það verður alls ekki gert með því takmarkaða fjármagni sem atvinnuþróunarfélög fá sem ég vildi gjarnan hafa tíma til að ræða um og geri það þá síðar í umræðu um þetta mál. Því fer víðs fjarri. Það er enginn vafi á því að það þarf að lækka lendingargjöld svo ég nefni eitthvað til að draga að erlenda aðila og fleira sem ég vildi gjarnan rekja. Hver á að hafa forustu um þetta? Hver ætlar að fara af stað nú strax og beita sér fyrir svæðisbundinni áætlun fyrir Suðurnesin?
    Sama vil ég reyndar segja um Vestfirðina þar sem liggur við hruni vegna þess að kvótinn hverfur á brott. Hver á að beita sér fyrir því átaki sem tvímælalaust er nauðsynlegt ef byggð á að geta þróast þar á eðlilegan máta og eins og nauðsynlegt er?
    Virðulegi forseti. Ég hef aðeins komið að litlu af því sem ég vildi hafa rætt hér en ég reyni að koma víðar við síðar í umræðunni.