Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:41:02 (4314)


[15:41]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun sé mjög jákvætt skref og ýmsar vonir bundnar við að gott muni af því leiða. Hins vegar er það alveg rétt sem hefur komið fram í umræðunni að margt í þessum texta sem hér liggur fyrir er með almennum orðum sagt og ber þess vott að þar er um að ræða málamiðlun milli misjafnra sjónarmiða.
    Ég tek undir það sem sagt er í þáltill. að auðvitað er það eitt af meginmarkmiðum byggðastefnu að nýta gæði landsins, en mér hefði fundist að það mætti leggja þyngri áherslu á sumt af því sem ég vék að í umræðunni áðan um skýrslu Byggðastofnunar, þ.e. um jöfnun aðstöðu. Það er lykilatriði að aðstaða fólks sé jöfnuð meira en gert hefur verið og eytt sé þeirri ranglátu mismunun sem á sér stað, t.d. í orkumálum, verðlagsmálum, fjarskiptamálum og á mörgum öðrum sviðum. Um þetta höfum við alþýðubandalagsmenn reyndar flutt margar tillögur, seinast tillögu um jöfnun verðlags.
    Eins hefði mátt fjalla hér ítarlegar og setja sér háleitari markmið í sambandi við flutning ríkisstofnana, um stuðning við flutning fyrirtækja út á land, um lánveitingar með lægri vöxtum o.s.frv. Það kemur þarna margt til greina sem ekki er hér minnst á. Ég tel hins vegar það mikilvægasta í þessari tillögu vera það að hér er sett fram það markmið að fjárveitingar til byggðamála séu eitthvað hækkaðar. Þar hefði þurft að ganga miklu lengra en hér er gerð tillaga um, en þó er hér viðleitni í rétta átt. Það segir beinlínis í þáltill. að framlög á fjárlögum verði á árinu 1995 300 millj. alls. Það er töluverð framför frá því sem nú er þegar Byggðastofnun fær 185 millj. kr. á fjárlögum. Reyndar er hér sagt að Byggðastofnun eigi að fá 200 millj. á árinu 1994 og veit ég ekki alveg hvernig ætlunin er að standa að því að bæta þar við sem á vantar. En kannski er eitt það jákvæðasta að menn setja sér það markmið að auka framlög til Byggðastofnunar allverulega og þá er bara að sjá til þess að standa við þau fyrirheit.
    Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forsrh. að það dróst nokkuð að frá þessu plaggi væri gengið af hálfu Byggðastofnunar og það er ekkert leyndarmál að ein helsta ástæðan til þess, eins og reyndar hæstv. forsrh. ýjaði að, var deila um að hve miklu leyti ætti að leggja áherslu á svokölluð vaxtarsvæði í þessari byggðaáætlun. Það hafði komið fram, eins og hæstv. forsrh. rakti áðan, ósk um það af hálfu forsrn. að í þáltill. og drögum að stefnumótandi byggðaáætlun yrði meginatriðið svokölluð vaxtarsvæði. Það yrði gerð tillaga um skilgreiningu þessa hugtaks og lagðar fram tillögur um eflingu sérstakra vaxtarsvæða.
    Ég ætla að viðurkenna það hér mjög fúslega að ég var í hópi þeirra sem voru ekkert mjög hrifnir af þessari áherslu forsrn. Ég taldi hana ekki markvissa heldur miklu fremur yfirborðslega, fannst þetta vera eins og eitthvert tískuhugtak sem menn væru að leggja áherslu á en vissu ekki almennilega hvað stæði á bak við. Auk þess kom mér verulega á óvart að hæstv. forsrh., sem um leið er formaður Sjálfstfl., skyldi leggja svo mikla áherslu á það að Byggðastofnun færi að ákveða fyrir fram og fram í tímann hvaða svæði ættu sérstaklega að vaxa og hver ekki. Ég hélt að þetta gæti varla verið í neinu samræmi við pólitískar hugmyndir forsrh. vegna þess að auðvitað felst í þessu býsna mikil miðstýringarárátta. Það er verið að segja það að ákveðin svæði hafi greinilega meiri skilyrði til að vaxa og dafna og því eigi að leggja áherslu á þau. Menn að gefa sér með ákveðnum lykilforsendum einhverjar skilgreiningar á því hver séu vaxtarsvæði og hver séu ekki vaxtarsvæði heldur jaðarsvæði eða eitthvað allt annað og síðan er áherslan lögð á þessi svæði.
    Ég tel að svona vinnubrögð séu hættuleg. Ég get nefnt fjöldamörg dæmi um það, bæði úr mínu kjördæmi og víða annars staðar af landinu, að litlir staðir sem kannski voru ekki með nema 200--300 íbúa fyrir 30 árum þegar ég var að byrja mitt pólitíska starf hafi dafnað og vaxið miklu hraðar og örar en aftur stórir staðir sem kannski hafa verið með 2--3 þúsund íbúa. Í þessu sambandi gæti ég nefnt mörg dæmi. Ég gæti t.d. nefnt Hvammstanga sem var lítill staður fyrir 30 árum, virtist ekki hafa mikla vaxtarmöguleika og hefði alveg örugglega verið dæmur úr leik samkvæmt svona fyrir fram skilgreiningum og ekki átt að fá neina sérstaka áherslu. Þessi staður hefur dafnað ákaflega vel á liðnum 30 árum og vaxið örar en ég vil segja flestir aðrir staðir á Norðurlandi. Ég vil ekki segja að hann hafi vaxið hraðast. Það má sjálfsagt finna dæmi um enn meiri hraða en þetta dæmi er tekið um stað sem dafnað hefur mjög vel.
    Þannig er þetta. Það er afar hæpið að ætla að segja eitthvað um það fram í tímann, kannski áratugi fram í tímann hvaða staðir hafi meiri vaxtarmöguleika en aðrir eða vera með stimpilinn á lofti og segja: Þetta er fyrsta flokks staður, þetta er annars flokks staður og þetta er þriðja flokks staður og hann á ekki að fá neinn stuðning. Þetta er ekki hugmyndafræði sem er mér að skapi. Ég lagðist því mjög eindregið gegn því að þessi hugmynd, þetta tískuorð ,,vaxtarsvæði`` væri haft með í tillögunni en féllst að lokum á þá málamiðlun að það mætti nefna það á einum stað innan sviga. Það er gert hér í tölul. 1 eins og menn þekkja en hefur bersýnilega ekki ýkjamikla merkingu. Ég tel að hinir ýmsu þéttbýlisstaðir á landinu verði sjálfir að fá að sanna hvaða möguleika þeir hafa og það sé ekki í samræmi við nútímalega hugsun að ætla að dæma um það fyrir fram hverjir hafa helst vaxtarmöguleika og hverjir ekki.