Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:58:34 (4316)


[15:58]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni að byggðamál skuli rædd í dag á Alþingi og oft búið að kalla eftir því að umræða fari fram bæði um þær skýrslur sem óræddar voru frá árunum 1991 og 1992 sem og almennt um byggðamálin. Hér liggur fyrir till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil þannig að samkvæmt dagskrá er hægt að fara vítt yfir sviðið. Ég ætla í mínum ræðutíma að minnast á nokkra þætti og koma fram fáeinum ábendingum að því er varðar þá tillögu sem hér er til umræðu.
    Um baksvið þessa máls mætti margt segja. Ég hef fyrr hér á Alþingi komið að þessum málum og vil leyfa mér aðeins að vísa til þess að á síðasta áratug flutti ég ítrekað ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga eins og við nefndum það. T.d. var á þinginu 1986, 109. löggjafarþingi, 39. mál þess þings og var nokkuð mikið að vöxtum með fylgiskjölum og gögnum sem dregin voru saman til stuðnings þeirri stefnumótun sem þar var lögð áhersla á. Ýmislegt af því gengur aftur í þessari tillögu hér og það er út af fyrir sig ánægjuefni nær áratug síðar að þær áherslur eru að sumu leyti komnar hér fram. Þar voru vissulega klassískir þættir í þessari umræðu eins og meiri valddreifing, flytja verkefni og ákvarðanir heim í héruð til lýðræðislega kjörinna stjórna, héraðsstjórna, sem ég hef lengi barist fyrir og reynt að vinna fylgi að landið fengi millistig í stjórnsýslunni vegna þess að ég hef ekki litið svo til að það væri auðvelt að búa sveitarfélögin í stakk til þess sem nægilega stórar einingar til að taka við þeim þáttum frá ríkisvaldinu sem æskilegt er að þau sinni úti í landshlutunum. Þarna var að finna áherslur um aukna ráðgjöf í atvinnulífi og stofnun nýrra fyrirtækja og framleiðsluþátta og margt, margt fleira sem ég ætla hér ekki að rekja.
    Á sama ári flutti ég sem brtt. við frv. til laga um sveitarstjórnarmálefni tillögu um að nýr kafli

kæmi þar inn um héraðsstjórnir þar sem var að finna þetta margumtalað millistig í stjórnsýslunni, fylki eða héruð. Ekki hlaut það framgang við þessa lagasetningu sem kunnugt er en ég bendi á þessa brtt. sem var flutt 1986 því að hún er eina þingmálið sem mér er kunnugt um þar sem reynt var að fella í heildstæðan lagaramma hugmyndina um að skipta landinu í slík héruð eða fylki og dregið upp hvernig þeim skyldi háttað, stjórnun þeirra og kjöri til héraðsstjórnanna. Þarna voru nefndir margir þættir sem rétt væri að færa hið fyrsta frá ríkinu til héraða, stórir málaflokkar sem sumir hafa sáralítið hreyfst út í héruðin. Þó að á sumum sviðum hafi verið vísir að því að flytja út þjónustuþætti og einstök mál sem eru á vettvangi ríkisins þá vantar þetta í stórum málasviðum. Ég leyfi mér að nefna hér húsnæðismálin, tryggingamál, skipulagsmál. Hugmyndir eru vissulega uppi um það með frumvörpum sem við höfum séð á fyrri þingum með breytingu á skipulagslöggjöf, að efla skipulagsstarfsemi úti í héruðum, og heilbrigðismálin sem er nú alveg skelfilegt til að vita hvernig haldið hefur verið á að þessu leyti þar sem við höfum haft ráðuneytið í Reykjavík og sáralitla svæðisbundna stjórn og enga marktæka áætlunargerð og því miður er niðurstaða í þessum málaflokki til marks um það að ekki hefur gengið sem skyldi. Þarna hefur verið ráðstafað fjármagni af opinberri hálfu, mjög tilviljanakennt til mikils ófarnaðar og svo koma menn upp með tillögur um það sem við ræddum fyrr á þessu þingi um það að slá þessa þætti meira og minna af úti í landshlutunum bara svona í einu vetfangi, skilja hálft landið eftir án sérhæfðrar sjúkrahússþjónustu og annað þess háttar sem eru náttúrlega vinnubrögð sem að mínu mati eru ekki boðleg fyrir Alþingi og ekki fyrir þau stjórnvöld sem þau bera fram.
    Ég sakna þess úr þessari tillögu, svo að ég snúi mér að efni hennar, og enn frekar úr þessu bakplaggi sem er um breyttar áherslur í byggðamálum að þar er engin viðleitni til þess að lýsa inn í þá geysilega miklu breytingu sem við stöndum frammi fyrir í íslensku efnahagslífi og sem reynir auðvitað ekki síður á landsbyggðina, raunar enn frekar en á höfuðborgarsvæðið sem er samningurinn stóri sem gekk í gildi hér um áramótin, samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði. Þar er aðeins minnst á það mál í tengslum við landbúnað lítillega og GATT í leiðinni en að öðru leyti eru því máli alls engin skil gerð og ekki reynt neitt að draga upp þær gerbreyttu aðstæður á fjölmörgum málasviðum sem fylgja í kjölfar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Menn eru hér að leggja fram stefnumótandi áætlun í byggðamálum án þess að koma á nokkurn hátt að því stóra máli. Þetta er eitt af því sem ég sem andstæðingur þessa samnings hef haft afar þungar áhyggjur af að fyrst svo fór að hann var samþykktur hér á Alþingi þá verða menn auðvitað að taka á honum stóra sínum til þess að mæta þessum breyttu aðstæðum og það m.a. á sviði byggðamála, atvinnumála um allt land því að hér stöndum við frammi fyrir alveg óþekktum viðfangsefnum og afar harðnandi samkeppni á öllum sviðum og þeim aðstæðum að búast má við að búið sé að opna landið sjálft til sölu fyrir útlendinga til jafns við Íslendinga án þess að komið verði við nokkrum vörnum enda verður þeim ekki við komið samkvæmt ákvæðum samningsins sem leiðir eitt yfir alla á hinu samningsbundna Evrópska efnahagssvæði.
    Virðulegi forseti. Þetta er ein vöntunin. Ég sakna þess líka að það skuli ekki vera tekið á skipulagsmálunum, að það skuli ekki vera reynt að tengja skipulagsvinnu, svæðisbundnar skipulagsáætlanir, ekki bara hagrænar áætlanir eða byggðaáætlanir í hefðbundnum stíl við þetta heldur það sem skiptir öllu máli að fella þetta í skipulagið, landrænu og auðvitað um leið hagrænu inn í áætlanir sem fái staðfestingu og samþykki jafnhliða því sem þær síðan verða reglubundið endurskoðaðar þannig að þetta séu plögg sem raunverulega fái þá umræðu sem þau verðskulda.
    Ég tel að margt hér í greinargerðinni þyrfti að gera athugasemdir við. Tíminn leyfir það ekki, virðulegur forseti, en ég vil nefna sérstaklega fyrstu greinarnar. Hér er talað um að nýta auðlindir og gæði landsins með hagkvæmum hætti. Það er hvergi minnst á það að ganga um umhverfi landsins og þessar auðlindir með þeirri varfærni sem skylt er og það er ekki á réttum stað og ég mun flytja brtt. við síðari umræðu málsins sem tekur á þessu efni. Ég tel líka að inn í stefnumarkandi inngang þessarar samþykktar þurfi að koma orðalag eitthvað á þá leið að tryggja að sem mestur jöfnuður náist í opinberri þjónustu og verðlagningu á orku, fjarskiptum og öðrum sambærilegum undirstöðuþáttum er varða afkomu fólks um land allt.