Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:46:21 (4324)


[16:46]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Vitaskuld er það svo, bæði með hv. 3. þm. Norðurl. v. og okkur aðra í Byggðastofnun að gjarnan vildum við hafa meira fé á milli handa og leggja til meira fé til þessarar starfsemi á komandi árum heldur en gert er í tillögunni. Þetta var hins vegar niðurstaða okkar og að henni stöndum við.
    Ég tók eftir því í máli hv. ræðumanns að hann virtist ekki hafa tekið eftir því að í sumum tilvikum rennur fé til byggðamála eftir öðrum leiðum. Svo er t.d. til iðnaðarins sem hann talaði um í sinni ræðu. En hvað sem því líður þá er auðvitað um það gríðarlegt viðfangsefni að ræða í þessum málaflokki að lengi væri pláss fyrir fé. Það er hins vegar ljóst að þær tölur sem þarna eru á blaði eru niðurstaða stjórnarinnar, það sem við treystum okkur til að leggja til á þessu stigi. Að því stóð stjórn stofnunarinnar öll. Ég er horfinn úr þessari stjórn og á ekki von á því að neitt hafi breyst þar síðan ég hvarf úr stjórn Byggðastofnunar.