Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:57:42 (4329)


[16:57]
     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég var þar í ræðu minni áðan að ég ræddi um svæðisbundnar áætlanir og ég lýsti því að ég taldi að í greininni eins og hún er orðuð væri ekki nægilega fast á því máli tekið. Ég nefndi sem dæmi staði eins og Vestfirðina, suðurhluta þeirra alveg sérstaklega, og Suðurnesin. Það sem ég vildi segja til viðbótar um þetta er að ég tel að svona svæðisbundnar áætlanir séu ákaflega mikilvægar og ég tel að það verði ákveðinn aðili að hafa forustu um að til slíkra áætlanagerða verði gripið þegar ljóst er að horfir til vandræða í atvinnumálum. Og ég er þeirrar skoðunar að það eigi Byggðastofnun að gera. Ég tel að Byggðastofnun sé sú stofnun sem langbest yfirlit hafi yfir byggðaþróun. Ég treysti því að hún geri það og hún var a.m.k. með mjög ítarlega starfsemi á því sviði og þá eigi hún að vara stjórnvöld við og hún eigi að leggja grundvöllinn að því að slíkar svæðisbundnar áætlanir verði gerðar.
    Ég er því alveg sammála að þetta eigi að gerast í samráði við viðkomandi sveitarfélög en þarna vantar finnst mér að undirstrika betur forustuna á þessu sviði.
    Það sem segir um áætlanagerð almennt á vegum hinna ýmsu ráðuneyta vil ég styðja, ég styð það eindregið, en vek athygli á því að um þetta hefur oft verið talað og reyndar var talað um menn sem væru að gera áætlun til nokkurra ára um fjárlög og það held ég að væri afar skynsamlegt en því miður hefur þetta ekki tekist.
    Hér hefur komið fram að sumum þykir ekki nægilega að gert með þessari tillögu og ég get út af fyrir sig tekið undir það þó að ég telji hana vera spor í rétta átt. Hér hefur verið minnst nokkuð á fjárveitingar til Byggðastofnunar. Ég vek athygli á því að samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1992 var fjárveiting til Byggðastofnunar aukin allverulega á árunum 1989, 1990 og 1991 og þá var reyndar samkvæmt ákvöðun fyrri ríkisstjórnar veittar 1.200 millj. til að bæta eiginfjárstöðu Byggðastofnunar en síðan hefur dregið úr fjárveitingum og dró þegar úr þeim á árinu 1992 og ég skildi svo einn af stjórnarmönnum Byggðastofnunar hér áðan að fjárveiting til Byggðastofnunar væri 185 millj. nú. í skýrslunni segir 200 millj. í ár og það væri fróðlegt að fá það upplýst hvernig það verður lagfært. Það er rétt og ber að fagna því að í þessari tillögu er gert ráð fyrir að auka síðan fjárveitingu til Byggðastofnunar í 300 millj. En ég vek athygli á því að það dregur um leið úr fjárveitingu annars staðar, sérstaklega hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þannig að heildarfjármagn, eins og það er þarna í tillögunni talið vera til byggðamála, á að vera óbreytt, 525 millj.
    Ég tel að atvinnuástandið víða um land sé svo alvarlegt að þarna þurfi að gera betur. Og mér finnst allt of lítið fjármagn sem ráðgert er til nýsköpunar í atvinnulífinu, ef ég má telja það fjármagn sem atvinnuþróunarfélögin eiga að fá undir þeim lið. Þar er um að ræða, ef ég man rétt, 30 millj. á ári og rekstrarfé aðrar 30 millj. En þessu er skipt yfir landið allt og þetta er dropi í hafið þar sem reglulega þarf að taka á til að aðstoða menn við að koma nýjum fyrirtækjum á fót með fjármagni sem ekki kostar okurvexti eða veðsetningar sem einstaklingar ráða ekki við. Þarna held ég að þyrfti að bæta verulega úr.
    Ég viðurkenni að það er mikið spor í þá átt ef forsrh. framkvæmdir það sem hann nefndi áðan og ég efast ekki um að hann gerir það, að létta af Byggðastofnun því ákvæði að hún megi ekki leggja fjármagn í hlutafé. Þarna gæti Byggðastofnun komið inn. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt, að Byggðastofnun sé þannig gert kleift að styðja nýsköpun í atvinnulífinu.
    Ég vil svo að lokum taka það fram að ég tel að Byggðastofnun eigi að vera mjög sjálfstæð stofnun og ég tel að hún eigi ekki að vera miðstýrð úr ráðuneyti. Mér þykir það einum of áberandi með þeim

tilskipunum eða með þeim fyrirmælum sem t.d. lágu til grundvallar þessari áætlunargerð. Þótt ég viðurkenni að það þurfi að vera samræmi á milli áætlana Byggðastofnunar og hugmynda ríkisvaldsins, þá held ég að það þurfi að fara mjög varlega þar. Staðreyndin er vitanlega sú að það gerast mjög fljótt hlutir í byggðamálum, stór vandræði rísa þegar einstök fyrirtæki, sem eru burðarás í viðkomandi byggðarlagi, lenda í erfiðleikum. Þá hefur Byggðastofnun hvað eftir annað þurft að hlaupa undir bagga með mjög litlum fyrirvara og það á Byggðastofnun að hafa leyfi til að gera.
    Að lokum, út af því sem hér hefur verið rætt, að flytja Byggðastofnun til Akureyrar. Ég verð að viðurkenna að ég er afar efins um að það sé rétt. Ég held að það hafi safnast í Byggðastofnun mikil sérþekking og væri synd ef hún flytti ekki með. Ég held að það þyrfti a.m.k. að athuga það vel. Mér leist afar vel á þá málamiðlun sem ég veit að Byggðastofun hefur farið inn á og hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem hefur setið þar í stjórn alllengi, beitti sér sérstaklega fyrir, að setja á fót sterkar byggðamiðstöðvar eða skrifstofur í öllum landshlutum. Þetta hefur verið gert þó enn þá þurfi að bæta við og tel ég þetta vera að mörgu leyti heillavænlegra skref og ætti að skoða hvort ekki er hægt að styrkja þessa landshlutaskrifstofur Byggðastofnunar enn meira en gert hefur verið.
    Ég vil að lokum taka það fram, svo ekki misskiljist mín orð, að ég fagna því að þessi tillaga er komin fram. Ég vona svo eindregið að hún leiði til þess að hér verði góð umræða og tekið á í byggðamálum og ég treysti því að sú nefnd sem fær hana til meðferðar styrki einstaka liði hennar. Ég vil því fyrir mitt leyti lýsa yfir stuðningi við þetta mál í grundvallaratriðum.