Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:12:57 (4331)


[17:12]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Austurl. um orkuniðurgreiðslur vil ég að það komi fram að ég hef upplýsingar um að þessi mál gangi aftur á bak en ekki áfram, þau standi ekki einu sinni í stað heldur gangi aftur á bak. Það er að segja, þessi aukna niðurgreiðsla sem ákveðin var á fjárlögum í vetur mun gefa þeim sem áður fengu niðurgreiðslur upp á 27.000 kr. eitthvað í kringum 31.000 kr. í niðurgreiðslur á ári á þessum köldu svæðum, en hækkun á raforkuverðinu frá rafmagnsveitunum mun aftur á móti verða 13% sem gæti þýtt á meðalíbúð að í staðinn fyrir að lækka orkuverðið þá muni það hækka um nálægt 10%, einhvers staðar á bilinu 8--10%. Þannig að ég er hræddur um að hv. þm. verði að taka sínum mönnum tak og sjálfum sér og reyna að fylgja betur eftir stefnunni sem var kynnt í hvítu bókinni og ríkisstjórnin lét svo mikið með í upphafi ferils síns, að hún ætlaði sér að ná niður orkuverðinu á köldu svæðunum.