Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:16:03 (4333)


[17:16]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hér hafi farið fram gagnmerk umræða um byggðamál og sú þál. sem hér liggur fyrir sé góður umræðugrundvöllur og þessi skýrsla eða áherslur sem stjórn Byggðastofnunar hefur náð saman um marki ákveðin tímamót. Það er nefnilega ekkert mikilvægara við núverandi aðstæður en að menn fari að keyra á háum ljósum í sinni stefnumótum og horfi til framtíðarinnar. Við höfum lent í þrengingum á samdráttartímum og stöndum frammi fyrir kaldri veröld ef stjórnmálamennirnir, ríkisstjórnin og ýmsir aðilar taka ekki höndum saman um að snúa þróuninni við. Eðlilegt er að menn deili um einhverja hluti. Hér hafa menn t.d. rætt um vaxtarsvæði byggðanna, hvort slíkt ætti rétt á sér. Ég hef haft svona fyrir minn byggðamálaráðherra hv. þm. Stefán Guðmundsson og í mörg ár hlustað á hans ræður í þeim efnum.
    Ég er ekki viss um að þetta sé rétt orðaval, vaxtarsvæði, því gjarnan er það svo ef eitthvað er talað um vaxtarsvæði að þá finnst mönnum að það sé verið að segja að allt hitt eigi ekkert að vaxa. En þegar maður hugsar um þetta og horfir á landið sem heild og fer um landið, þá sér maður það fyrir sér að í þróuninni liggur þetta fyrir. Það eru ákveðin svæði í hverju kjördæmi sem hljóta að verða miðstöð opinberrar þjónustu ríkis, opinberrar einstaklingsþjónustu, á svo mörgum sviðum. Ég sé það t.d. fyrir mér í mínu byggðarlagi, á Selfossi, að eftir því sem bærinn hefur vaxið, eftir því sem þar er meiri opinber þjónusta,

þá kemur þangað líka einstaklingsframtakið sem veitir þjónustu --- ég á við í lögfræði, bókhaldi, tannlækningum o.s.frv. --- og sest þar að, því allra leiðir liggja í sjálfu sér á þennan stað.
    Svona er hægt að fara um landið og við sjáum að staðirnir hljóta að vera tiltölulega fáir á hverju byggðarsvæði sem munu taka að sér þessi meginverkefni. Þetta gæti heitið meginþjónustustaðir byggðanna eða eitthvað slíkt. Það er enginn að segja að hinir eigi ekki að vaxa, þeir taka við öðrum verkefnum og um það þurfum við einmitt að hugsa í okkar byggðaáætlunum. Hér hefur verið minnst á mörg atriði sem einmitt þarf nú að hugsa um við þessar aðstæður þegar 10.000 manns ganga um án atvinnu, þegar 17.000 Íslendingar búa erlendis og eiga ekki afturkvæmt heim til fósturjarðarinnar vegna þess að stefnan hefur verið röng í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar sérstaklega nú síðustu tvö ár en í meginatriðum um of langan tíma of lítið hugsað um atvinnulífið og því skapað svigrúm.
    Ég tek því undir margt í þáltill. og í skýrslu Byggðastofnunar. Við sjáum það í skýrslu Byggðastofnunar að mörg svæðin eru í mikilli hættu ef þar verður ekki tekið verulega á. Það eru sérstaklega hin einhæfu landbúnaðarsvæði sem eiga erfitt eins og kemur fram á mynd á bls. 26. Það er Skaftafellssýsla, Rangárvallasýsla, Vestur-Húnavatnssýsla og Dalasýsla. Og ég segi fyrir mig að ég hugsa til þess með fögnuði ef menn breyta reglugerðum Byggðastofnunar og hún má á nýjan leik koma inn í þróunarverkefni og eiga hlut í fyrirtækjum þá getur slík ráðstöfun gjörbreytt möguleikum á þessu svæði. Ég tek Rangárvallasýsluna sem dæmi. Þar var unnið mesta byggðaafrek sem unnið hefur verið á síðustu árum þegar ríkisvaldið, Byggðastofnun og fleiri komu inn í og stuðluðu að flutningi Sláturfélagsins austur fyrir fjall og gjörbreyttu ástandi á Suðurlandsundirlendinu öllu. Það er einmitt með þessum hætti sem þarf að vinna.
    Við Íslendingar eigum mörg tækifæri. Ég nefndi í fyrri ræðu í dag sérstaklega iðnaðinn sem við þurfum að hugsa um með nýjum hætti. Um það vildi ég segja þetta: Ég held að heildsalastéttin á Íslandi hafi staðið gegn mörgu hvað varðar iðnaðaruppbyggingu. Innflutningsvaldið hefur í gegnum ráðherra og jafnvel stjórnmálamenn drepið möguleika okkar til að fullvinna ýmsar afurðir. Vegna þess að við leikum ekki sama leikinn og aðrar þjóðir, erum bláeygðir í okkar aðgerðum og höfum látið keyra niður íslenskan iðnað og ekki leyft ýmsum iðnaðarmöguleikum að ná fótfestu og dafna. Ég gæti nefnt mörg dæmi um það. Þar eigum við sérstaklega að taka á.
    Ég minntist á landbúnaðinn í fyrri ræðu minni. Ég vil hér sérstaklega koma aðeins að ferðaþjónustunni. Þar eigum við gífurlega möguleika og getum enn horft til nýrrar framtíðar ef við þorum. Það var sagt fyrr í dag að á mörgum sviðum værum við óvinir okkar sjálfra sem í byggðunum búum og deildum um kannski mikilvæg framtíðarmarkmið. Ég vil nefna eitt dæmi úr mínu kjördæmi. Í fyrra eða hittiðfyrra leitaði athafnamaður eftir því að fá að leggja akveg upp á Heklu. Þetta var stöðvað og menn risu upp í forpokun og sögðu: Þetta er náttúrlega fáránlegt, Hekla er heilög. En við vitum að hún er þekktasta eldfjall í veröldinni og hvers vegna skyldi ekki mega leggja akveg á Heklu? Það gæti stóraukið ferðamannastraum í þúsunda tali að komast eftir akvegi upp á þetta glæsilega eldfjall og horfa yfir þetta mikla undirlendi. Allt í einu segja einhverjir sérfræðingar, ofstækismenn í náttúruvernd og menn sem halda að hún eigi að vera heilög nunna til eilífðar að þetta megi ekki.
    Svona eru möguleikarnir ótalmargir sem við eigum til að efla okkar byggðir. En því miður höfum við verið of skammsýnir. Ég vænti þess að þessi umræða og þessar tillögur og vinna Alþingis í nefndinni verði til þess að menn nái saman um að styrkja íslenskt atvinnulíf og þá ekki síst byggðir landsins.