Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:33:05 (4335)


[17:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Fyrst út af þessu orði vaxtarsvæði. Mér finnst menn hafa verið svolítið í erfiðleikum með skilgreiningu á hvað þeir væru að fara og fastir í þeirri nauðsyn að skilgreina með einhverjum hætti hvað væru vaxtarsvæði. Ég held að menn þurfi ekki að gera það. Ég tel að ef vilji er fyrir hendi og fyrirætlanir um að styrkja búsetu og atvinnulíf á landsbyggðinni þá vitanlega láta menn fjármunina renna til þeirra staða þar sem einhver von er í atvinnulífinu og þar sem eitthvað nýtt er að gerast eða þar sem þarf að bjarga því sem fyrir er frá því að farast. Ég held því að þessi skilgreiningarvandi eigi ekkert að vefjast fyrir mönnum og menn þurfi yfirleitt ekki að vera að festa sig í því sem heitið gæti vaxtarsvæði. Að mínu viti er það hættulegt að því leyti að ef menn fara að merkja ákveðna staði þannig þá muni menn ekki komast frá því og þangað leiti þá fjármagnið þrátt fyrir að þörfin geti verið meiri einhvers staðar annars staðar. Ég vil því meina að það þurfi að komast út úr þessum þankagangi.
    Það stendur hér í b-lið 4. gr.: ,,Atvinnuþróunarstarf á vegum heimamanna verði eflt með fjárhagslegum stuðningi Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélög í hverju kjördæmi.`` Undir þetta vil ég alveg sérstaklega taka. Ég tel að atvinnuþróunarfélögin séu mjög gagnleg og hafi á sumum stöðum gert mjög góða hluti. Og ég tel að það sé einmitt aðferðin við að efla atvinnulíf á þessum svæðum almennt að efla atvinnuþróunarfélög og helst að hafa þau áhrif að þau verði til á fleiri stöðum. Eða að öflug félög taki yfir stærri svæði sem er út af fyrir sig ekkert verri kostur. Ég þekki til þess að svona atvinnuþróunarsjóðir hafa gert mikið gagn og gefið t.d. sveitarfélögunum miklu frjálsari hendur og betri möguleika til þess að hafa jákvæð áhrif á atvinnuþróunina.
    Í c-lið er enn fremur talað um að kannað verði hvort hægt sé að kaupa erlend fyrirtæki til landsins. Það vil ég líka taka undir. Ég held að það séu möguleikar sem menn hafi nýtt sér allt of lítið hér á landi að kaupa heil fyrirtæki til landsins. Þetta hefur gerst hérna í mjög fáum tilfellum reyndar en það hefur tekist. Og ég vil meina að það sé einmitt á slíkum hlutum sem við verðum að taka núna í þessu umhverfi sem búið er að ákveða að við ætlum að keppa í í framtíðinni, þ.e. á EES-svæðinu. Þar sem við leyfum öllum öðrum að keppa á jafnréttisgrundvelli við okkur í landinu þá þurfum við að skapa atvinnulífinu hér sams konar skilyrði og atvinnulífið sem er að keppa við okkar atvinnugreinar hefur. Það getum við ekki gert nema velja atvinnugreinar sem við ætlum að standa við bakið á. Við getum ekki stutt við bakið á hverju sem er í landinu. Við höfum ekki til þess fjármuni og við höfum ekki möguleikana vegna þess hversu smáir við erum. Ef við aftur á móti berum gæfu til að velja einhverjar atvinnugreinar sem yrðu fyrir hendi kannski víða um landið með svipuðum hætti og sjávarútvegurinn er í hverju þorpi allt í kringum landið og verður að stórveldi í höndunum á okkur með þeim smáu einingum öllum samanlögðum þá þurfum við að velja einhverjar atvinnugreinar sem geta orðið sterkar. Ef menn gera það ekki, ef menn taka ekki slíkar ákvarðanir þá munum við aldrei geta keppt á útflutningsmörkuðum. Það þurfa menn að horfast í augu við. Það er ekki nóg að taka ákvarðanir um að það eigi að vera hægt að keppa við okkur á jafnréttisgrundvelli ef við tökum ekki ákvarðanir sem gera okkur sjálfum kleift að keppa á þessum grundvelli.
    Það vantar allt á það. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. ríkisstjórn væri með neitt á prjónunum sem orð er á gerandi í sambandi við það að koma af stað nýjum iðnaði sem gæti keppt á erlendum mörkuðum. Ég hef ekki séð það. Þó ættu menn að muna vel tuttugu ára sögu aðildar okkar að EFTA þar sem menn fóru af stað með frómar óskir og miklar vonir um að Íslendingar gætu allt í einu farið að keppa á jafnréttisgrundvelli og það yrði mikil lyftistöng fyrir iðnaðinn í landinu. Það hefur virkað þveröfugt. Iðnaðurinn hrundi úr höndunum á okkur, það litla sem við höfðum. Við misstum heimamarkaðinn sem var okkar iðnaður í sjálfu sér. Það getur alveg farið þannig að við höldum áfram að missa út úr höndunum á okkur það sem við höfum ef menn ætla ekki að breyta um vinnubrögð. Ég verð að segja alveg eins og er að þó ég hafi verið og sé andstæðingur samningsins um EES, þá er í mér mikill hrollur yfir því hvað þessir aðilar sem bera ábyrgð á samningnum og hafa ákveðið að þessar reglur skuli gilda á Íslandi virðast ætla að standa sig illa í því að búa okkur undir þessa samkeppni og reyna að gera eitthvað úr þessu.
    Svo illa er ekki komið fyrir manni að maður ætli að vera á móti bara til að það sannist að þetta hafi verið röng ákvörðun. Ég býst ekki við að alþingismenn séu svo óþjóðhollir að þeir hugsi þannig. Ég segi alveg eins og er að ég hef verið að fylgjast með því í mínu kjördæmi hvað er að gerast á vettvangi atvinnulífsins í tilefni af því að við erum komnir með þennan EES-samning. Og því miður er ekkert að gerast. ( StG: Hvað segirðu, ekkert nýtt?) ( ÓÞÞ: Þetta getur ekki verið satt.) Ég veit ekki hvort menn eru hugmyndasnauðari á því svæði en annars staðar á landinu. En þannig er nú þetta. ( StG: Þetta átti bara að koma af sjálfu sér.) Þetta átti auðvitað að koma með blóm í haga og milljarða á hverju ári. Ég man ekki betur en að í þessum ræðustól hafi menn talað um 2 og allt upp í 7 milljarða sem við fengjum á hverju ári út úr þessu. Það hefur ekki bólað á því enn þá. Það er að vísu ekki langt síðan samningurinn gekk í gildi. En það er langt síðan menn vissu að hann gengi í gildi og menn eru búnir að hafa aðlögunartímann og möguleikann til að undirbúa sig. Það hefur ekki gerst því miður. Ég tel að af því að við erum að tala um atvinnuþróun í raun þegar við erum að tala um landsbyggðina, t.d. er talað sérstaklega um iðnað á landsbyggðinni, þá ættum við að sjá einhver merki um að verið væri að hugsa um að láta þennan iðnað keppa við innflutninginn því þannig eru leikreglurnar orðnar. Ef ekki verður hægt að keppa við innflutninginn mun iðnaðurinn koðna niður.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég segja það vegna þeirra orða að við höfum talað þvert á stefnu hv. þm. Ragnars Arnalds, sem hefur verið í stjórn Byggðastofnunar, þá hefur hvað rekist á annars horn í ræðum þeirra sem hafa hér talað. Hæstv. forseti sagði áðan úr ræðustól að hv. þm. Ragnar Arnalds hefði skrifað upp á þetta allt en hv. þm. Egill Jónsson mætti og sagði að Ragnar hefði ekki verið á fundinum.