Aðaltollhöfn í Þorlákshöfn

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:12:29 (4342)


[15:12]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Þorlákshöfn verður ekki gerð að aðaltollhöfn nema með breytingum á tollalögum, þannig að það er ekki einungis á valdi fjmrn. að gera þá breytingu sem hér er gerð að umtalsefni. Vegna fyrirspurna og óska frá útgerðarfélagi og sveitarstjórn í Þorlákshöfn fyrr á þessu ári var þetta mál hins vegar skoðað í fjmrn. og hjá ríkistollstjóra. Niðurstaða þeirrar skoðunar varð sú að ekki væri tímabært að gera breytingar á ákvæðum tollalaga um aðaltollhafnir vegna Þorlákshafnar.
    Um nokkurn tíma hefur staðið til að láta fara fram heildarendurskoðun á tollalögunum. Við slíka endurskoðun verður sérstaklega skoðað hvort rétt sé að gera breytingar á ákvæðum laganna um aðaltollhafnir og tollhafnir.
    Ráðuneytið hefur óskað eftir ítarlegri umsögn tollgæslustjóra um tilhögun tollafgreiðslu í Þorlákshöfn þar sem m.a. verði kannað áætlað vörumagn sem tollafgreitt verður í Þorlákshöfn, kostnaður, tengingar við tollkerfi og annað er lýtur að tilhögun tollafgreiðslu og á þeim grundvelli verður metið hvort tilefni sé til breytinga á núverandi fyrirkomulagi.
    Samkvæmt núgildandi lögum heyrir tollafgreiðsla í Þorlákshöfn undir tollstjórann á Selfossi. Vörur sem fluttar eru til landsins með skipum til Þorlákshafnar eru því tollafgreiddar þar, en starfsmenn tollstjórans í Reykjavík hafa séð um tollafgreiðslu sjálfra skipanna. Í flestum tilfellum þarf einungis að senda aðflutningsskjöl og önnur skjöl sem varða vöruna til Selfoss. Einnig er hægt með leyfi sýslumannsins á Selfossi að senda vörur til Reykjavíkur og tollafgreiða þær þar. Á það hefur verið bent af hálfu tollgæslustjóra að einfalda mætti tollafgreiðslu í Þorlákshöfn með því að koma upp afmörkuðu svæði til geymslu ótollafgreiddra vara, en samkvæmt lögum er það farmflytjenda að koma upp og sjá um rekstur slíkrar geymslu.
    Embættismenn fjmrn. hafa haft samband við sýslumanninn á Selfossi og í viðtölum við hann kom fram að hann telur nauðsynlegt, og það er auðvitað burt séð frá þessu tiltekna máli, að auka starfsemi í tengslum við tolla á Selfossi. Þar er tollsvæði þar sem veruleg tollafgreiðsla fer fram. Sýslumaðurinn hefur óskað eftir að geta gert þá breytingu að starfsmaður sem starfar hjá sýslumannsembættinu og þekkir vel til tollamála fari að mestu leyti eingöngu í þau störf, en annar verði ráðinn til þeirra starfa sem þessi hefur sinnt hingað til. Í viðræðum við dómsmrn. hefur komið fram að dómsmrn. er reiðubúið fyrir sitt leyti að flytja stöðuheimild að Selfossi, enda viðurkennir ráðuneytið brýna nauðsyn á aukningu þar. Dómsmrn. kannar nú möguleika á að gera breytinguna á Selfossi fyrr en um mitt ár. Með þessum hætti á að vera hægt að auka og bæta tollafgreiðslu á Selfossi og í Þorlákshöfn þannig að ekki þurfi í sama mæli og áður að leita til Reykjavíkur með tollafgreiðslu. Ég sé ekki annað en að með þessum hætti ætti að vera unnt að leysa mál Þorlákshafnar á fullnægjandi hátt, a.m.k. um sinn, eða þar til breytingar verða gerðar, ef gerðar verða, á lögunum um aðaltollhafnir og tollhafnir.