Aðaltollhöfn í Þorlákshöfn

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:18:52 (4345)


[15:18]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að mér finnst að hér sé um tiltölulega einfalt mál að ræða í framkvæmd þannig að það þurfi ekki að vera að blanda mörgu öðru inn í það. Þarna er um að ræða innflutningshöfn sem þarf á þessari þjónustu að halda og vitanlega er það svo að þjónustan á að koma til fólksins en ekki fólkið til þjónustunnar.
    Ef hæstv. ráðherra telur tormerki á að hann flytji frv. til laga um breytingu á tollalögum þar sem þetta er lagfært vildi ég vonast til að hann hefði ekkert á móti að þingmenn Suðurlands stæðu að því að flytja slíkt frv. þannig að það stæði ekki lengur á Alþingi og þyrfti ekki að vísa til þess að ráðherra gæti ekki lagfært þetta vegna þess að lagaheimild vantaði.