Aðaltollhöfn í Þorlákshöfn

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:20:50 (4346)


[15:20]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans þótt maður sé dálítið þreyttur á því að sjá ráðherrana lesa upp þessi embættismannabréf sem þeir stundum koma með. En auðvitað staðfestist það í huga mínum eftir þessa ræðu ráðherrans að menn ætla að standa gegn þessum þjóðþrifamálum. Hins vegar hef ég séð það hér að þingmenn þurfa ekkert að vera að ætlast til þess að hæstv. ráðherrar, ef þeir hafa ekki vilja til þess, komi með frv. að slíkum breytingum. Auðvitað getum við og munum leggja fram frv. um slíkt og náð samstöðu um þá einföldu breytingu hér í þinginu.
    Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að hér er um einbætti sýslumanns Árnessýslu að ræða og staðan er sú í dag að í tollafgreiðslunni á Selfossi fara nú þegar fram einar 3.000 tollafgreiðslur og það er mikilvægt að þar komi tollþjónn til starfa. Og til þess að þessi inn- og útflutningur fái þrifist og skotið rótum þá verður það að vera klárt að ekki þurfi að leggja fram beiðni um að ,,klarera`` skip með nokkurra daga fyrirvara. Það verður að fara fram á svæðinu. Þetta er mjög einfalt mál í mínum huga og ég undra mig á því hvernig menn geta lagst gegn svona einföldum málum, hvernig hægt er að tefja það í kerfinu, svo sjálfsögð mannréttinda- og héraðsmál. Vissulega er það svo eins og ég sagði í upphafsræðu minni að Þorlákshöfn verður aldrei fyllilega nothæf sem inn- og útflutningshöfn fyrir Suðurlandsundirlendið nema hún fái réttindi aðaltollhafnar og sýslumaður Árnesinga hafi valdið í sínum höndum. Það er engin leið að þola að annarlegir hagsmunir stöðvi svona þjóðþrifamál fyrir utan hitt, hæstv. forseti, að hér get ég talið upp í langri bunu hafnir hringinn í kringum landið sem liggja jafnvel hlið við hlið og hafa fengið þessi sjálfsögðu réttindi að heita aðaltollhöfn.