Viðræður ríkisins og BSRB

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:26:45 (4349)


[15:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Í bréfi sem ég ritaði Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja 28. nóv. kemur annars vegar fram að ætlunin sé að koma upp samstarfsnefnd sem ræði um kjaramálefni og hins vegar samráðsvettvang sem ræði um ýmis efni sem tiltekin eru í þessu bréfi mínu til bandalagsins. Það skal tekið fram varðandi fyrri þátt málsins, sem reyndar er ekki í fyrirspurninni, að samráðsnefndin hefur þegar hist nokkrum sinnum og komst tiltölulega fljótt á laggirnar. Hins vegar dróst það nokkuð að setja síðari nefndina af stað. Bréf kom frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja sem er dags. 25. jan. þar sem sagt var frá hvernig bandalagið teldi eðlilegast að haga þessu samstarfi og tiltók einnig hvaða menn voru tilnefndir af hálfu bandalagsins. Þessu bréfi svaraði ég snemma í febrúar og skipaði 5 manna samráðshóp til þess að eiga þetta samráð. Hópurinn hefur þegar hist einu sinni. Reyndar er ekki langt síðan það var því fyrsti fundurinn hófst fyrir hálftíma. En skýringarnar eru þær að það tók þennan tíma að finna form á þetta samráð.
    Þetta ætti að svara fyrirspurninni en af því að vikið var að einkavæðingarfrumvörpunum skal tekið fram að frv. um Lyfjaverslun ríkisins til að mynda var komið fram áður en samið var á sl. hausti og þess vegna ekkert óeðlilegt að það frv. fengi eðlilega afgreiðslu í þinginu en það verður auðvitað eitt af því sem verður rætt við BSRB enda hefur aldrei staðið til að fara gegn réttindum þeirra starfsmanna sem starfa hjá ríkinu.
    Til viðbótar, af því að ég hef hérna smátíma og tel mig vera búinn að svara fyrirspurninni að mestu, er kannski ekki úr vegi að segja frá því að á því samningsbili sem nú almennt ríkir, þ.e. frá 1. mars 1993 til 31. des. 1994, hefur samninganefnd ríkisins lokið samningum við 49 stéttarfélög opinberra starfsmanna eða 14.720 ríkisstarfsmenn en eftir standa 18 samningar er varða rúmlega 4 þúsund starfsmenn. Þannig er 73% samningsgerðar vegna 78% ríkisstarfsmanna lokið.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því það hefur ekki verið mikið fjallað eða með feitu letri um samningastarfsemi á vegum ríkisins að undanförnu en ég tel þetta til marks um það að samstarf og samráð ríkisins annars vegar og starfsmanna ríkisins hins vegar er í mjög góðu lagi og ég vona að svo verði áfram að sjálfsögðu.