Markaðsátak í rafmagnssölu

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:37:40 (4353)


[15:37]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Hv. þm. spyr hver hafi orðið árangur af átaki Landsvirkjunar til að auka rafmagnssölu á innanlandsmarkaði. Á árinu 1991 var gerður samningur við Ísal um sölu á 172 gígavattstundum á ári af ótryggðu rafmagni sem gæfi Landsvirkjun 113 millj. kr. í tekjur miðað við núgildandi gjaldskrá. Á þessu ári eru kaup fyrirtækisins áætluð 147 gígavattstundir og tekjur af sölunni um 97 millj. kr.
    Haustið 1992 samþykkti stjórn Landsvirkjunar skilmála um sölu á svokölluðu umframrafmagni. Gerðir hafa verið 18 samningar, níu vegna fiskvinnslu, þrír vegna ylræktar, tveir vegna mjólkuriðnaðar, þrír

vegna annars iðnaðar og einn vegna flutninga. Í ylræktinni er um að ræða þrjú samlög og eru margir garðyrkjubændur í hverju þeirra. Áætluð söluaukning á yfirstandandi ári vegna þessara samninga er 8 gígavattstundir sem þýða um 16 millj. kr. tekjuaukningu fyrir Landsvirkjun.
    Þá samþykkti stjórn Landsvirkjunar í júlí að veita 50% afslátt til aldamóta af verði ótryggðs rafmagns til fiskimjölsverksmiðja til að hagkvæmt verði fyrir þær að setja upp rafskautakatla við gufuframleiðslu. Teknir hafa verið upp samningar við tvær fiskimjölsverksmiðjur og fjóra aðra aðila um sölu á 80 gígavattstundum á ári sem gefa um 25 millj. kr. í tekjur.
    Á árinu 1987 hóf Landsvirkjun að veita fiskeldisfyrirtækjum afslátt af rafmagnsverði vegna dælingar á sjó í strandeldisstöðvum. Á árinu 1994 er áætlað að afslátturinn nemi um 25 millj. kr. vegna 18 gígavattstunda sölu. Samtals er um að ræða allt að 278 gígavattstundir á ári. Þar af er allt að 252 gígavattstundir ótryggð raforka og um 26 gígavattstundir forgangsorka. Árlegar tekjur Landsvirkjunar af þessari sölu gætu numið allt að 180 millj. kr.
    Í öðru lagi spyr þingmaðurinn hve stór hluti tekjuaukningar verði af raforkusölu til stóriðju og hversu stór af sölu á rafmagni til annarra atvinnugreina. Árlegar tekjur af aukinni sölu til stóriðju gætu orðið um 113 millj. kr. eða 63% og áætlaðar tekjur af aukinni sölu til annarra atvinnugreina um 66 millj. kr. eða 37%. Mælt í orkueiningum væri skiptingin svipuð, stóriðja með 62% en önnur atvinnutarfsemi með 38%.
    Í þriðja lagi er spurst fyrir um hvort fyrirhugaðar séu frekari ráðstafanir til að auka raforkusölu á vegum Landsvirkjunar. Landsvirkjun áformar að vinna áfram að markaðsátaki í náinni samvinnu við almenningsveitur. Hér verður drepið á helstu verkefnin.
    Fyrst er að nefna að niðurstöður starfshóps á vegum iðnrn. sem falið var að kanna leiðir til að auka rafmagnsnotkun í fiskimjölsiðnaði benda til að hagkvæmt sé að setja upp rafskautakatla til gufuframleiðslu í 10 fiskimjölsverksmiðjum með um 125 gígavattstundaorkuþörf á ári. Til að vega á móti kostnaði verksmiðjanna við kaup og tengingu búnaðar ákvað stjórn Landsvirkjunar að veita 50% afslátt af verði ótryggðs rafmagns. Samningar hafa verið gerðir við tvær verksmiðjur. Áfram verður unnið að þessu máli.
    Í öðru lagi hafa, eins og áður hefur komið fram, verið gerðir samningar við fleiri aðila á svipuðum kjörum og fiskimjölsverksmiðjurnar njóta og eru fleiri möguleikar til athugunar, m.a. styrkir ráðuneytið nú athugun á möguleikum til að nýta þennan afslátt í rækjuverksmiðjum en í þeim er gufa yfirleitt framleidd í olíukötlum.
    Í þriðja lagi: Áfram verður unnið að sölu á umframrafmagni með 1 kr. afslætti á kwst. á forgangsorkuverði.
    Í fjórða lagi: Þrátt fyrir að yfirgnæfandi hluti húsnæðis sé hitaður upp með jarðvarma eða rafmagni eru enn milli 2 og 3% kynt með olíu. Einkum er um að ræða stór hús þar sem niðurgreiðslna nýtur ekki við. Leitað verður leiða til að gera rafmagnið samkeppnishæft við olíu á þessum sviðum.
    Rétt er að vekja athygli á því að nokkrar almenningsrafveitnanna hafa verið að efla starfsemi sína á sviði markaðsmála og leitað leiða til að auka hlutdeild í orkubúskapnum. Gott samstarf hefur verið á milli þeirra og Landsvirkjunar í þessu efni. Í framhaldi af athugun starfshóps á vegum iðnrn. haustið 1992 á möguleikum til að auka notkun á landrafmagni til skipa í höfnum landsins hafa margar veitnanna lækkað gjaldskrá fyrir þessa notkun eða veitt afslátt til að verða samkeppnishæfar við rafmagn sem framleitt er í ljósvélum skipanna.
    Þá hafa margar rafveitur verið að lækka gjaldskrá fyrir mannvirkjagerð. Sá árangur sem náðst hefur í að auka hlut rafmagns í orkubúskapnum með þessum hætti er ánægjulegur og mikilvægt að áfram verði unnið að því að kanna allar leiðir í því efni. Atvinnulífið, orkufyrirtæki og stjórnvöld þurfa að vinna sameiginlega að þessu máli og mun iðnrn. halda áfram að stuðla að því.