Eftirlit með heilbrigði og hollustu innfluttra landbúnaðarvara

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:53:59 (4357)


[15:53]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans þar sem margvíslegan fróðleik er að finna. Meginniðurstaðan virðist samt vera sú að það vantar meira starfslið til þess að vinna að þessu. Jafnvel þó óbreytt skipulag hefði verið á innflutningsmálum kallar aukinn innflutningur sem nú blasir við að sjálfsögðu á betra skipulag. Því er það mikilvægt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, að vilji er til þess hjá viðkomandi aðilum að ráða bót á því. Jafnframt hlýtur að koma til kasta Alþingis að veita til þess nægilegt fjármagn svo að unnt verði að sinna þeirri hlið sem kemur í kjölfar ákvarðana sem Alþingi sjálft hefur tekið.
    Það er vissulega athyglisvert sem kom fram í svari hæstv. ráðherra að gæðum hefði nokkuð verið ábótavant í sumum tilvikum og hlýtur að verða að leggja áherslu á að það standi til bóta.
    Það kom jafnframt fram í svari hæstv. ráðherra að sumir þættir eru lítið kannaðir sem geta samt skipt mjög miklu máli fyrir heilbrigði fólks eins og þess sem ég nefndi í máli mínu áður. Ég hlýt að leggja

áherslu á að þarna verði brugðist skjótt við og fólki gert vart við að þarna geti verið um hættu að ræða ef það er ekki kannað til hlítar áður.